Sigþór skorar á ökumenn: „Enginn á að þurfa að óttast um líf sitt í vinnunni“

„Starfsfólkið okkar vinnur stundum við svo erfiðar aðstæður á hraðbrautum með umferðina á fleygiferð á næstu akrein að hrein lífshætta er á ferð og oft má engu muna,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Ísland, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni skorar Sigþór á ökumenn að fara varlega í kringum þá fjölmörgu starfsmenn sem vinna við að malbika götur höfuðborgarsvæðisins og nærsveita.

„Nú fer í hönd sá tími þegar vinnuflokkarnir okkar hjá Colas fara að loka fyrir ykkur vegunum og valda töfum og hjá sumum ykkar gremju og óþægindum í umferðinni. Við biðlum til ykkar allra að virða þessa vinnu sem fram undan er, ykkur öllum til hagsbóta,“ segir hann.

Fram hefur komið að veturinn hafi verið erfiður og haft slæm áhrif á göturnar.

„Það er algjörlega nauðsynlegt að fræsa upp skemmda og hjólfaraslitna vegarkafla og leggja nýtt malbik til að auka öryggi okkar allra. Og talandi um öryggi! Okkur er svo umhugað um líf starfsfólks okkar sem eðlilegt er, að við biðjum og vonum alla daga að ekkert komi nú fyrir,“ segir hann og skorar loks á ökumenn landsins.

„Borgarar! Í ár erum við með sérstaka áskorun til ykkar. Virðum umferðarhraðann þegar hann er tekinn niður meðfram vinnusvæðunum. Virðum merkingar og lokanir. Virðum að það er lifandi fólk að störfum við erfiðar aðstæður. Samgöngustofa, Vegagerðin, lögreglan og nokkrir af stærri verktökum sem vinna við vegagerð og viðhald vega kynna í ár sérstakt vitundarátak undir heitinu: Aktu varlega – mamma og pabbi vinna hér.“

Sigþór bendir á að hönnuð hafi verið sérstök skilti sem verður komið fyrir á vinnusvæðum í sumar og eiga að minna fólk á þá staðreynd að á svæðinu er lifandi fólk sem vill koma heim til barna sinna að vinnudegi loknum.

„Enginn á að þurfa að óttast um líf sitt í vinnunni. Colas mun gera allt sem hægt er til að létta ykkur lífið. Langflestir umferðarþyngstu vegarkaflarnir verða malbikaðir að næturlagi þannig að sem minnstar truflanir verði í umferðinni. Við leitumst við að malbika sem mest í júlí þegar rólegast er í borginni og klára allt innan borgarmarkanna áður en skólastarf hefst í ágúst en eins og þið vitið stóreykst umferðin í borginni um það leyti. En það verða lokanir, stundum þarf að taka á sig krók. Virðum hvert annað og sýnum fólkinu okkar kurteisi og tillitssemi. Það vinnur gríðarlega mikilvægt starf þér og þínum til öruggara lífs. Veitum því að sama skapi öryggi við vinnu sína, með því að taka tillit.“