Sigrún fór á veitingastað: Rak upp stór augu þegar hún sá matseðilinn – „Ákváðum að þarna færum við aldrei aftur“

Sigrúnu Stefánsdóttur, fjölmiðlakonu til margra ára og núverandi fjölmiðlaráðgjafa, þykir gaman að fara á veitingahús og borða góðan mat. Sigrún segir frá heimsókn á veitingastað á Spáni í pistli á vefnum Lifðu núna, en á veitingastaðnum rakst hún á nokkuð sem kom henni spánskt fyrir sjónir.

„Við ákváðum að fara til Spánar í nokkrar vikur til þess að hvíla okkur á snjónum fyrir norðan. Fyrsta morguninn í Malaga fórum við á kaffihús til þess að fá okkur morgunverð. Við báðum um matseðil en þjóninn benti okkur á strikamerki sem var límt á borðshornið. Við höfðum aldrei séð svona merki og spurðum hvort hann ætti ekki venjulegan matseðil. Hann hristi höfuðið en játaði svo treglega að hann ætti einhvers staðar uppi í hillu gamaldags matseðil en hann væri reyndar ekki uppfærður. Hann skellti rykföllnu eintaki á borðið og við pöntuðum heldur þungbúin. Við vorum greinilega “out” í augum þjónsins. Við ákváðum að þarna færum við aldrei aftur,“ segir Sigrún en um var að ræða svokallaðan QR-kóða sem hefur verið að ryðja sér til rúms að undanförnu.

Sigrún segir í pistli sínum að QR-kóðinn njóti vaxandi vinsælda á veitingastöðum á Spáni. Hann virkar þannig að þú skannar kóðann með símanum þínum og ferð inn á vefsíðu þar sem hægt er að panta matinn og meira að segja borga fyrir hann. Þetta þykir Sigrúnu heldur flókið og virðist hún ekki vera ein um þá skoðun.

„Við hittum íslenska fullorðna konu á förnum vegi í Malaga og fórum að ræða þetta umrædda strikamerki. Hún hristi höfuðið og sagði að það væri alltaf verið að örgra okkur með nýjum tæknilegum áskorunum. Hvað var að prentuðu matseðlunum? Getur verið að Covid og sóttvarnaraðgerðir hafi verið hugsunin á bak við þessar ”framfarir”. Varla,“ segir Sigrún og nefnir annað dæmi af fínu veitingahúsi sem notaði kóðann einnig.

„Þegar við komum aftur heim í snjóinn fyrir norðan fórum við á Rub 23.Við fengum í hendur fallegan matseðill í möppu og góð ráð frá elskulegum þjóni. Við þökkuðum okkar sæla fyrir að Ísland er ennþá með ”gamaldags” matseðla sem hægt að skoða og panta eftir án þess að missa æruna í augum þjónsins.“