Sigríður ósátt við gesti á Tvíhöfða í gærkvöldi: „Geta Íslendingar ekki hlegið nema vera fullir?“

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, oft kölluð Sigga Stína, skellti sér á skemmtisamkomu Tvíhöfða í Háskólabíó í gærkvöldi. Í færslu á Facebook-síðu sinni beinir hún gagnrýni sinni að gestum samkomunnar en svo virðist vera sem margir hafi haft vín um hönd.

„Ég fór á skemmtisamkomu Tvíhöfða í Háskólabíó í gærkvöldi. Sko mér finnst gaman að fá mér vínglas. En hvað er það að geta ekki setið í tæpa tvo tíma og hlustað á brandara á ÞRIÐJUdagskvöldi án þess að hella í sig bjór og/eða léttvíni,“ spyr hún í færslu sinni.

Látlaust ráp á fólkinu

Sigríður bendir á að það hafi ekki verið neitt hlé á sýningunni. „Þannig að liðið var látlaust rápandi niður að sækja meira bús eða fara á klóið að tappa af sér vökva. Geta Íslendingar ekki hlegið nema vera fullir? Og þá hlæja þeir eins og vitlausir og arga og góla.“

Sigríður segir að þessi menning sé ekki bara bundin við samkomur líkt og þá sem hún sótti í gærkvöldi því hún sé því miður einnig allsráðandi í leikhúsunum líka. Sigríður slær svo á létta strengi í lokin og segist við það að verða bindindispostuli.

Skrýtið að geta ekki verið án áfengis í smástund

Ólína Þorvarðardóttir leggur orð í belg undir færslu Sigríðar og segir að það sé eitthvað nýtt í leikhúsunum að taka með sér áfangi inn í sal.

„Hef ekki orðið vör við þetta áður, en segi eins og þú: Það er eitthvað skrítið að geta ekki notið skemmtunar í 1-2 klst án áfengis. Er þá ónefnd truflunin sem ölvun veldur öðrum gestum, eins og dæmin sanna,“ segir Ólína en hún sagði frá atviki í viðtali við Fréttablaðið á sýningunni Níu líf Bubba á dögunum.

Halldóra Geirharðsdóttir leikkona þaggaði þá niður í háværum gesti á sýningunni. Sagði hún við hann að ef hann gæti ekki verið til friðs þá færi hann út úr salnum.

Sigríður bendir á að það sé nokkuð liðið síðan leyft var að bera með sér áfengi inn í salinn í Borgarleikhúsinu. Það sé ekki til bóta á neinn hátt, en eflaust tekjuaukandi fyrir veitingasöluna. Undir það tekur Ólína.

„Ekki til bóta á neinn hátt, enda fátt huggulegt við það að sitja í sætaröð með vínglas og geta hvergi lagt það frá sér. Ekki gaman fyrir þá sem sitja næst manni að eiga alltaf á hættu skvettu yfir sig við minnstu hreyfingu. Ekki gaman fyrir neinn þegar rápið byrjar að ekki sé minnst á dólgslæti sem líka geta komið upp eins og ég hef nýlega orðið vitni að.“