Sigmundur um stóra brauðtertumálið: „Ég verð þó að taka fulla ábyrgð“

„Eftir 12 ár kom loks að því að ég þyrfti að takast á við erfitt mál í pólitík og það nú rétt fyrir kosningar. Hér vísa ég aug­ljós­lega í stóra brauð­tertu­málið.“

Þannig hefst færsla Sig­mundar Davíðs Gunn­laugs­sonar, formanns Mið­flokksins, á Face­book þar sem hann gerir upp „stóra brauð­tertu­málið“ svo­kallaða. Matar­gúrúinn Nanna Rögn­valds­dóttir birti sjálf færslu í gær þar sem hún veitti því at­hygli að um­tals­verð líkindi virtust milli brauð­tertu upp­skriftar sinnar og þeirra sem Sig­mundur sagði sína eigin í grein á mbl.is.

Sjá frétt: Nanna Rögn­valdar kannast við brauð­tertu Sig­­mundar Davíðs: „Hefur ekki einu sinni fyrir því að breyta orða­lagi“

Sig­mundur segir svo virðast sem upp­skriftin sem sögð var hans sé byggi á leið­sögn Nönnu, án þess að þess væri getið.

„Væntan­lega var þetta af­rakstur erindis sem ein­hver hefur svarað fyrir mína hönd í kosninga­önnum, vitandi að ég var veikur fyrir brauð­tertum og tíð­rætt um það í fermingar­veislum og á kosninga­skrif­stofum. Ég verð þó að taka fulla á­byrgð á málinu.“

Ekki borðað brauðtertu í tvö ár

Hann segir þó verst að hann hafi haldið út í rúm tvö ár án þess að leggja sér til munns brauð­tertu. Sig­mundur segist hafa sótt heim eldri borgara á Húsa­vík fyrir skömmu þar sem honum var boðin dýrindis terta.

„Á morgun verður svo brauð­tertu­há­tíðin mikla sem haldin er á fjögurra ára fresti. Ég hafði hugsað mér að gera undan­tekningu í til­efni dagsins og háma í mig brauð­tertur hvort sem þær eru eftir upp­skrift Heim­kaupa, Nönnu Rögn­valds eða annarra (ég hef enn ekki fullan skilning á öllum öngum málsins).“

Sig­mundur segir það leitt að Nanna, hin „lands­fræga mat­reiðslu­kona“, sé fórnar­lamb í málinu. Hún sé mikils metin á heimili hans og deilir nafni með ömmu, frænku og systur Sig­mundar. Hann tekur þó sér­stak­lega fram að að systir Nanna Margrét hans tengist málinu með nokkrum hætti en hún er í fram­boði fyrir Mið­flokkinn í Suð­vestur­kjör­dæmi.

„Ég hvet ykkur því til að fá ykkur brauð­tertur á morgun og kjósa Nönnu,“ segir Sig­mundur að lokum.