Sigmari finnst þögnin grunsamleg: „Flokkarnir logandi hræddir við að leggja í önnur fjögur ár“

Sigmar Guðmundsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, segir að þessi mikla og djúpa þögn um það hvernig gengur að mynda ríkisstjórn sé að verða miklu meiri ráðgáta en sú sem Birgir Ármannsson og félagar eru að reyna að leysa í Norðvesturkjördæmi.

Sigmar gerir þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni en nú er rétt tæpur mánuður liðinn frá kosningum og ekki hefur enn verið mynduð ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG hafa verið í viðræðum undanfarnar vikur en flokkarnir hafa flýtt sér hægt síðustu vikur.

Sigmar telur að þessi þögn og þessi langi tími sem liðinn er segi aðeins eitt:

„Fjórar vikur frá kosningum og þetta langdregna hjartahnoð segir okkur það eitt að flokkarnir þrír eru logandi hræddir við að leggja í önnur fjögur ár. Það kemur sannast sagna lítið á óvart.“

Sigmari er bent á að hugsanlega sé ástæðan sú að niðurstöður kosninganna liggja ekki fyrir, einmitt vegna klúðursins í Norðvesturkjördæmi. Á endanum muni flokkarnir vafalítið mynda ríkisstjórn þegar þau mál eru komin á hreint.

Sigmar telur hins vegar að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur ná illa saman um lykilmál.

„Ég skil vel að Bjarni og Katrín vilja vinna sama áfram. Vandinn er hinsvegar sá að baklandið þeirra á erfitt með að sætta sig við nauðsynlega eftirgjöf. Gildir um báða flokka. Réttmætar kröfur B um meira afl í ljósi sigursins flækir svo stöðuna.“