Sigmar Guðmunds: Fáðu þér íbúfen ef þú skuldar pening

„Það er ljóst að landsmenn klóra sér nokkuð í kollinum með áhyggjusvip þegar farið er yfir kvittunina úr matvörukaupum þessa dagana,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í athyglisverðri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Þar skrifar hann um verðlag hér á landi og krónuhagkerfið sem getur gert fjölskyldum lífið leitt.

„Það er nánast sama hvaða vörur eru keyptar, allt hefur hækkað og sumt umtalsvert. Það er dýrara að versla í matinn, dýrara að keyra og heilt yfir kostar miklu meira að vera til í dag en fyrir fáeinum mánuðum,“ segir Sigmar sem segir að sumt af þessu sé óumflýjanlegt vegna þess að klikkaður einræðisherra í einu stærsta ríki heims ákvað að ráðast inn í annað ríki með tilheyrandi bresti og óvissu í heimsmarkaðsbúskapnum.

„Ýmislegt annað sem fyrirsjáanlega fylgir þessum verðhækkunum ætti að kalla á háværari umræður í samfélaginu,“ segir hann.

Sigmar segir einstaklega blóðugt fyrir fjölskyldur og einstaklinga, sem velta því fyrir sér hvernig bregðast eigi við verðhækkunum, að skoða stöðuna á húsnæðislánunum um hver mánaðamót.

„Verðtryggðu lánin hækka skarpt þrátt fyrir afborganir. Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa hækkað um 100 til 150 þúsund á mánuði. Og þúsundir heimila bíða þess með ótta að tímabil hinna föstu vaxta á húsnæðislánunum renni út á þessu og næsta ári með tilheyrandi vaxtarothöggi sem gerbyltir heimilisbókhaldinu til hins verra.“

Sigmar segir að mörg þessara heimila hafi trúað fagurgala og kosningaloforðum stærsta flokks landsins um að runnið væri upp á Íslandi sérstakt lágvaxtaskeið.

„Að runninn væri upp einhver hliðarveruleiki krónuhagkerfisins þar sem óhætt væri að skuldsetja sig í trausti þess að vextir yrðu lágir um langa framtíð. En auðvitað er reyndin sú að heimshagkerfið þurfti að stöðvast vegna heimsfaraldurs til að vextir lækkuðu hér að ráði. Lágvaxtaskeiðið, „lægstu vextir í sögunni“, eins og það hét á flettiskiltum XD stóð yfir í heila fimm mánuði. Það er um það bil jafn langt og meðgöngutími sauðfjár, svona til að setja það í samhengi.“

Sigmar bendir á að verðbólgan núna sé ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur veruleikinn víða um lönd.

„Hún er meira að segja ögn lægri, aldrei þessu vant, en í sumum nágrannalöndunum. En vextirnir eru að sjálfsögðu margfalt hærri hér. Þetta er harður íslenskur veruleiki, jafn óumflýjanlegur og harðneskjulegur veturinn. Þessu íslenska samspili krónunnar, vaxta og verðbólgu fylgja svo óhjákvæmilega ýmis bjargráð eins og verðtrygging og óverðtryggðir fastir vextir, sem vissulega lina þjáningarnar, en draga um leið tennurnar úr vaxtahækkunum sem ætlað er að slá á verðbólguna. Fresta verkjunum. Eins og íbúfen gerir.“

Sigmar segir að hagstjórnin á Íslandi gangi nákvæmlega út á þetta.

„Að gefa þjóðinni íbúfen gegn viðvarandi, krónískum vaxtabólgum sem hrjáir þjóðarlíkamann og hefur gert í áratugi. Ekkert er gert til að ráðast að rót vandans sem er íslenska örmyntin. Þess í stað er fólki talin trú um að þessar svæsnu krónubólgur séu eftirsóknarverður eiginleiki og til marks um sveigjanlegan efnahag. En er það boðlegur málflutningur þegar verkjalausu tímabilin eru ekki lengri en meðgöngutími húsdýranna okkar?“