Hringbraut skrifar

Siggi Árna er látinn – Bubbi: „Takk fyrir að færa mér súg undir vængina“

16. febrúar 2020
22:27
Fréttir & pistlar

Sigurður Árnason, upptökumaður, bassaleikari og frumkvöðull er látinn. Hann hafði mikil og djúp áhrif á íslenska tónlistarsögu. Sigurður lést í gær eftir erfið veikindi. Hann tók þátt í að stofna hljómsveitina Náttúru sem var meðal meðal vinsælustu og metnaðarfyllstu sveita þess tíma og gaf út eina plötu sem telst í dag meðal gersema íslenskrar tónlistarsögu. Þá segir Bubbi Morthens að Ísbjarnarblús, án aðkomu Sigurðar eða Sigga Árna eins og hann var gjarnan kallaður, hefði aldrei orðið eins og hún varð, en Siggi Árna útsetti Ísbjarnarblús og lék á bassa í upptökum.  Fjölmargir minnast Sigga Árna á samfélagsmiðlum svo sem tónlistarmennirnir Rúnar Þór og Jakob Frímann Magnússon.

Sigurður hjálpaði fleiri tónlistarmönnum ásamt því að slá í gegn með mörgum af bestu hljómsveitum landsins. Bubbi Morthens minnist þessa merka tónlistarmanns á samfélagsmiðlum. Bubbi segir:

„Það er til fólk sem kemur inní líf manns á réttum tíma, áreynslulaust en breytir heildarmyndinni varanlega. Hann var með andlit sem minnti mig á mynd sem ég hafði séð af indíjánahöfðingja með stórt fagurskapað nef, skásett augu, sítt slétt hár og strákslegt bros. Þegar hann talaði hljómaði hann alltaf sannur.“

Siggi Árna kom inn í líf Bubba árið 1980 sem upptökumaður á Ísbjarnarblús, ásamt því að útsetja og leika á bassa. Bubbi segir:

„Án hans hefði platan aldrei orðið það sem hún varð. Stál og hnífur fór á plötuna vegna þess að hann talaði mig inná það.“

Í hlaðvarpsþættinum Sögur af plötum þar sem Bubbi og Siggi Árna voru gestir röktu þeir sögu Ísbjarnarblús.

Sigurður Árnason, upptökumaður og bassaleikari, um fyrstu kynni sín af Bubba Morthens í öðrum þætti hlaðvarpsins Sögur af plötum. Það greindi Siggi Árna frá því hvernig þekktasta lag Bubba komst næstum því ekki á plötuna. Siggi Árna sagði:

„Þegar þú tókst Stál og hnífur þá vorum við bara tveir uppi í stúdíói og þegar þú ert búinn að spila þetta inn þá segirðu:

„Æ, eigum við að láta þetta fara með?“ og ég sagði „Hvað? Auðvitað!“ Og svo í dag er þetta þjóðsöngur Íslendinga!“

Þessu svaraði Bubbi: „Þú leyfðir hlutunum svolítið að fara sína leið. Ísbjarnarblús er í rauninni jafn mikið þér að þakka og mér að þakka.“

Á Facebook segir Bubbi: „Hann var yfir og alltumkring í upptökum, ljúfur, skilningsríkur, tranaði sér aldrei fram en hafði ótrúleg áhrif á þróun plötunnar. Á þessum árum var ég ungur og hafði hvorki tíma, getu né skilning á því hversu stór áhrif hans voru. En með árunum skildi ég það og gat kvittað fyrir áhrif hans á plötuna og snilld.“

Þá segir Bubbi einnig: „Siggi var í æsku minni stórt nafn, spilaði með bestu hljómsveit landsins. Hann hafði séð Bítlana sem var svipað og að páfinn segði:

„Ég sá guð á fremsta bekk í gær.“

Þegar ég hitti Sigga fyrst og sagði að mig langaði að taka upp plötu og spilaði fyrir hann nokkur lög brosti hann og sagði: „þetta verðum við að gera, þetta er á skjön við allt sem aðrir eru að gera.“

Og hann lagði sig fram, gaf mér tíma og sagði við Svavar Gests að ég hefði ekki notað eins marga tíma og ég vildi meina að ég hefði notað. En Siggi sagði:

„Ég vissi að þetta væri sögulegt og ákvað að vera ekki að segja Svavari rétt frá.“

Að gera Ísbjarnarblúsinn með Sigga var og er ein eftirminnilegasta upplifun ævi minnar. Ég átti nóg af grasi og allir reyktu og mórallinn í hljóðverinu var ótrúlega fallegur. Við náðum að fara saman yfir plötuna í podkastþætti á Fréttablaðinu þar sem hann varpaði sínu ljósi á ferlið og þá gerði ég mér ennþá betur grein fyrir því að hann teiknaði í raun plötuna upp. Leyfði okkur strákunum að gera allskonar tilraunir. Var sjálfur hvetjandi, óspar á hrósyrði handa manni.

Þegar ég var kvíðinn yfir viðtökum plötunnar þá sagði hann:

„Þessi plata er sprengja!“

Og brosti. Án Sigga er ég ekki viss um að ævintýrið mitt hefði fengið vængi árið 1980.

Þá segir Bubbi að lokum:

„Megi minningin lifa um góðan dreng. Við komum og við förum. Meðan ég lifi lifir hann. Ég man þig, Siggi Árna, og takk fyrir að færa mér súg undir vængina.“

Hér má horfa á hljómsveitina Náttúru og goðsögnina Sigga Árna í Borgarleikhúsinu: