Hringbraut skrifar

Sif Sigmars um hækkun lægstu launa: „Höfum við efni á því að gera það ekki?“

2. mars 2020
09:58
Fréttir & pistlar

Sif Sigmarsdóttir pistlahöfundur tekur fyrir kjarabaráttu Eflingar í nýjasta leiðara sínum í Fréttablaðinu í dag. Hún veltir fyrir sér hvort íslenskt samfélag hafi efni á því að hækka ekki laun þeirrar stéttar sem býr við mestu fátækt á Íslandi. 

Enn og aftur tekur rithöfundurinn fyrir mál líðandi stundar og setur það í nýtt samhengi. Í leiðara sínum veltir hún upp spurningum í tengslum við breska tímamótarannsókn á heilsuójöfnuði á Englandi sem Michael Marmot, fremsti faraldsfræðingur Breta, stóð fyrir. Niðurstöðurnar, að mati Marmot, sýndu fram á að heilsa þjóðarinnar væri í heljargreipum fátæktar. 

„Hann kennir niðurskurði hins opinbera um sem hafi leitt til aukinnar fátæktar, bágs húsakosts og skertrar félagsþjónustu. Marmot skorar á ríkisstjórnina að vinna bug á fátækt barna sem eykst hratt, fækka láglaunastörfum þar sem starfsskilyrði eru bág og starfsöryggi lítið, sjá til þess að lágmarkslaun og bætur tryggi mannsæmandi líf og fjárfesta í fátækustu svæðum landsins,“ skrifar Sif.

„Verkfall borgarstarfsmanna í stéttarfélaginu Eflingu hefur farið fram hjá fáum. Einkum hafa kjör ófaglærðs leikskólastarfsfólks vakið umtal en samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hefur ófaglært starfsfólk í barnagæslu lægst laun af öllum starfsstéttum í landinu,“ bendir Sif á í leiðara sínum. 

„Könnun sýnir að 60% landsmanna styðja launakröfur Eflingar. Ekki eru þó allir hlynntir því að lægstu laun hækki. Raddir um launaskrið og höfrungahlaup heyrast víða.“

Sif vitnar í Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem lýsti yfir áhyggjum af kröfum Eflingar í þátti Silfur Egils síðustu helgi. Þar sagði hann að lægstu launin væru hluti af flóknu kerfi og að ákveðin lögmál myndu skapa vandamál fyrir háskólamenntaða einstaklinga og þá sem væru að íhuga háskólanám. 

„Bjarni hefur á réttu að standa um eitt: Kröfur Eflingar eru hluti „af flóknu kerfi“.Í skýrslu sinni um lífslíkur á Englandi reiknast Michael Marmot til að heilsuójöfnuður kosti þjóðarbúið 82 milljarða punda á ári í gegnum heilbrigðiskerfið vegna heilsuleysis sem tengist fátækt, félagsþjónustu, bótakerfi og skatttekjur sem ríkið verður af. Árið 2018 gerðu bresk stjórnvöld samanburð á því hversu hratt lífslíkur aukast í hátekjulöndum innan OECD. Aðeins tvö lönd komu verr út en Bretland. Bandaríkin. Og Ísland,“ skrifar Sif og bendir á að íslenskt samfélagi standi frammi fyrir stórri spurningu: 

„Samkvæmt tölum Hagstofunnar lækkaði meðalævilengd grunnskólamenntaðra kvenna á Íslandi á árunum 2011-2018. Spurningin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir er ekki: Höfum við efni á því að hækka lægstu laun? Hún er þvert á móti: Höfum við efni á því að gera það ekki?“

Hægt er að lesa pistil Sifjar á vef Fréttablaðsins, www.frettabladid.is