Sif Sigmars segir Vinstri græn í pólitískri tilvistarkreppu: „Kannski eru Vinstri græn ein­fald­lega ekki til.“

Sif Sig­mars­dóttir, einn vin­sælasti pistla­höfundur landsins, gerir Vinstri græn að um­fjöllunar­efni sínu í pistli í Frétta­blaðinu í dag. Hún telur flokkinn eiga í pólitískri til­vistar­kreppu, en sam­kvæmt nýjustu skoðana­könnun Gallup hefur fylgi Vinstri grænna ekki verið minna síðan 2013.

„Vinstri græn kunna að klóra sér í höfðinu yfir ör­lögum sínum. Á­stæða hrak­fara þeirra er hins vegar aug­ljós. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður VG, átti í síðustu viku fund með leið­toga hvít­rúss­nesku stjórnar­and­stöðunnar. Stjórnar­and­staðan í Hvíta-Rúss­landi hefur gagn­rýnt harð­lega kjör­ræðis­mann Ís­lands þar í landi, Alexander Mosjenskíj, sem er náinn for­seta landsins, Alexander Lúka­sjen­ko, „síðasta ein­ræðis­herra Evrópu“ og helsta banda­manni Pútíns Rúss­lands­for­seta. Ekki var þó rætt um stöðu hins um­deilda kjör­ræðis­manns á fundinum og vildi Katrín ekki svara spurningum um per­sónu­lega skoðun sína á sam­starfi Ís­lands og Mosjenskíj þegar blaða­menn Stundarinnar leituðu eftir því,“ segir Sif.

Sif bendir á að Katrín hafi ekki farið jafn leynt með skoðanir sínar í sömu viku þegar Hæsti­réttur Banda­ríkjanna felldi úr gildi for­dæmis­gefandi úr­skurði Roe gegn Wade frá árinu 1973, sem bannaði ríkjum að tak­marka rétt kvenna til þungunar­rofs. Í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Twitter sagði hún að á­kvörðun hæsta­réttar þar ytra væru „gífur­leg von­brigði.“

„Ekki fylgdi þó sögunni hvað henni finnst um að dóms­mála­ráð­herra hennar eigin ríkis­stjórnar hafi kosið gegn ný­legu frum­varpi um aukna heimild kvenna á Ís­landi til þungunar­rofs,“ segir Sif. Hún líkir Vinstri grænum við leið­toga Verka­manna­flokksins í Bret­landi, Keir Star­mer, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að vera „lit­laus.“ Það leiði til þess að of margir kjós­endur hafi ekki hug­mynd um hver hann er: „Hann þarf að skil­greina sjálfan sig áður en and­stæðingar hans gera það,“ segir Sif.

Sif telur gjána orðin svo djúpa, milli orða Vinstri grænna og at­hafna þeirra, fagurra fyrir­heita og á­kvarðana ríkis­stjórnarinnar sem þau heita að leiða, að kjós­endur hafi ekki hug­mynd um hver þau eru. Sif vitnar í pistil Illuga Jökuls­sonar á Stundinni, þar sem hann gagn­rýnir Vinstri græn fyrir ný­sam­þykkta ramma­á­ætlun.

„Rétt eins og flokkurinn hefur þegar sannað að hann er ekki lengur vinstri­hreyfing með þjónkun sinni við efna­hags­stefnu Sjálf­stæðis­flokksins, þá er morgun­ljóst að hann er ekki heldur grænt fram­boð,“ sagði Illugi.

Og Sif veltir fyrir sér. „Kannski eru Vinstri græn ein­fald­lega ekki til.“