Sif Sigmars: „samherji er eins og kynlífs-költið“

22. febrúar 2020
21:24
Fréttir & pistlar

Pistlahöfundurinn Sif Sigmarsdóttir líkir Samherja við sértrúarsöfnuðinn Nxvism í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar fer hún yfir sögu safnaðarins, sem hún bendir á að hafi misnotað dómstóla í eigin þágu. Þá veltir hún fyrir sér hvort hrein sannleiksást liggi að baki þegar lögfræðingar Samherja senda bréf vegna fréttaflutnings RÚV.

Í pistlinum greinir Sif frá sögu safnaðarins Nxivm. „Í mars árið 2017 bankaði kanadísk leikkona, Sarah Edmondson, að dyrum á einbýlishúsi í Albany-borg í Bandaríkjunum. Sarah var félagi í sjálfsstyrkingarsamtökum sem kölluðust Nxivm. Það átti að vígja hana inn í DOS, sérstaka kvennahreyfingu Nxivm sem var aðeins fyrir útvaldar.

Hinum megin við dyrnar beið martröð. Nxivm var stofnað árið 1998 af Keith Raniere. Keith var sagður haldinn undragáfum. Hann kvaðst hefði verið altalandi eins árs, vera með margar háskólagráður og spila á píanó eins og konsertpíanisti. Yfirlýst starfsemi Nxivm var að hjálpa fólki að ná árangri í lífi og starfi. Raunveruleikinn var þó annar,“ lýsir Sif.

Hún lýsir því hvernig Sarah gekk úr söfnuðinum árið 2017. Þá lýsir hún því hvernig Nxivm kærði Söruh til lögreglu fyrir að valda fyrirtækinu fárhags-og orðsporðshnekki. „Árum saman hafði Nxivm notað málaferli til að kveða niður gagnrýnisraddir.“

Sif setur þetta svo í samhengi við Samherja:

„Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefði hótað RÚV málshöfðun vegna fréttar um „meintar“ mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Sagði lögfræðingur fyrirtækisins umfjöllunina „refsiverða“ og geta haft í för með sér fangelsisvist.

Þá sagði í bréfinu að „framganga af þessu tagi“ gæti valdið tjóni sem væri bótaskylt og réðust fjárhæðir „af þeim viðskiptahagsmunum og orðspori sem er undir“. Áskildi Samherji sér „rétt til að höfða mál,“ skrifar Sif og heldur áfram:

„Vel má vera að hrein sannleiksást knýi Samherja áfram í bréfaskiptum sínum við RÚV. En annar möguleiki er þessi: Samherji er eins og kynlífs-költið.“

Hún rifjar upp orð Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara: „Það má alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem mögulega hafa framið efnahagsbrot og eiga hagsmuna að gæta haldi uppi vörnum með ógnunum og tilraunum til þöggunar.“

Hún segir söguna af Nxivm dæmi um tvennt:

„Annars vegar hvernig fjársterkir aðilar nota dómstóla til að kveða niður gagnrýni og hræða aðra til þagnar. Hins vegar hversu mikilvægt er að fjölmiðlar beini kastljósinu að misgeðfelldum starfsháttum þessara sömu fjársterku aðila þrátt fyrir hótanir. Því rétt eins og Sarah Edmondson komst að: Það er svo oft sem yfirvöld kæra sig kollótt um réttlætið fyrr en óréttlætið hefur verið afhjúpað á forsíðum blaðanna.“