Síðast þegar Páll sá svona tölur hækkaði fasteignaverð mjög hratt

21. október 2020
12:10
Fréttir & pistlar

„Við gætum horft fram á 7 til 8 prósenta hækkun á þessu ári, það var spáð 3 til 4 prósentum,“ segir Páll Heiðar Pálsson fasteignasali í Fréttablaðinu í dag.

Fréttablaðið greinir frá því að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 1 prósent í septembermánuði, en samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur það hækkað um 4 prósent síðustu sex mánuði og 5,6 prósent síðasta árið.

Páll bendir á að þetta sé nokkuð umfram spár greiningardeilda stóru bankanna og telur hann að markaðurinn gæti ofhitnað og skortur verði á eignum næstu árin.

„Það eru um 2.100 eignir skráðar til sölu á höfuðborgarsvæðinu, þar af um 700-800 nýbyggingar sem eru jafnvel þrískráðar. Eins er mikið um að eignir séu enn auglýstar til sölu sem eru seldar með ákveðnum fyrirvörum. Það má því segja að það séu í raun á bilinu 1.400 til 1.500 eignir á markaðnum í dag. Á sama tíma eru um 25.000 notendur að skoða fasteignavef Morgunblaðsins á viku,“ segir Páll við Fréttablaðið. Hann segir að lokum:

„Ég hef séð svona tölur áður, en síðast þegar ég gerði það þá hækkaði verðið mjög hratt.“