Séra Davíð gagnrýnir Bjarna Ben: „Ég er ekki á þessum markaði“

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, er ekki ánægður með Bjarna Bendiktsson, fjármálaráðherra, og þær fyrirætlanir hans að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka á næstunni.

„Vegna þess að ég heyrði ráðherra nýlega tala um nauðsyn þess að "setja eigur ríkisins á markað" finnst mér nauðsynlegt að afrugla aðeins hvernig sagt er frá þessu. Hér eru tvö orð sem vert er að gefa gaum að merkingunni í og því hvernig þau eru notuð. Hið fyrra er "markaður". Hverjir eru "markaðurinn"? Ég er ekki á þessum markaði og fólkið sem kemur hingað til að biðja um hjálp er það ekki heldur. Öryrkjar eru ekki á þessum markaði.“

Að mati Séra Davíðs er orðið „Markaður“ í raun fínt orð yfir það sem kallað er „fjármagnseigendur“ sem aftur er skrúðyrði yfir þá sem eiga peningana, auðmenn.

„Hitt orðið er "ríkið". Hverjir eiga "ríkið"? Það er í raun almenningur í þessu landi, þjóðin. Höfum þess vegna alveg á hreinu að þegar talað er um að setja eigur "ríkisins" á "markað" er í raun verið að tala um að koma eigum þjóðarinnar í hendur auðmanna.“