Sema Erla með opið bréf til Katrínar: „Pólitísk á­kvörðun sem þú getur breytt!“

Sema Erla Serdar, for­maður Solaris – hjálpar­sam­taka fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk á Ís­landi, birtir opið bréf til Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra á Vísi í dag.

„Kæra Katrín Jakobs­dóttir,

það hefur legið fyrir árum saman hversu slæmar að­stæður eru fyrir fólk á flótta í Grikk­landi. Ríkis­stjórn þín tók fyrir nokkrum árum þá á­kvörðun að hætta að endur­senda fólk í hælis­kerfinu þar í landi vegna ó­við­unandi að­stæðna. Það nær þó ekki til fólks með vernd í Grikk­landi þó að­stæður þeirra séu í dag verri en að­stæður fólks í verndar­kerfinu í sama landi,“ skrifar Sema.

„Það stað­festa al­þjóð­leg hjálpar- og mann­úðar­sam­tök, frá­sagnir flótta­fólks og sjálf­boða­liða á svæðinu sem og frétta­flutningur síðustu ára en sam­kvæmt um­mælum þínum síðustu daga virðast þær upp­lýsingar ekki hafa komist til skila til ís­lenskra stjórn­valda,“ bætir hún við.

Hún nefnir síðan nokkur dæmi um þær að­stæður sem bíða hátt í 100 ein­stak­linga sem ríkis­stjórn þín ætlar að senda til Grikk­lands á næstu dögum, sem Rauði krossinn á Ís­landi hefur meðal annarra í­trekað bent á:

„Að­stæður flótta­fólks í Grikk­landi eru ó­við­unandi. Í sumum til­fellum eru þær lífs­hættu­legar. Fólk með vernd í Grikk­landi á erfitt með að upp­fylla grund­vallar­þarfir sínar vegna hindrana á hinum ýmsu sviðum. Að­gengi að opin­berri fram­færslu er tak­mörkuð fyrir fólk með vernd í Grikk­landi sem hefur orðið til þess að fjöldi fólks hefur ekki tæki­færi til að afla sér lág­marks lífs­viður­væris. Fólk sem fær vernd í Grikk­landi á einungis rétt á að dvelja í flótta­manna­búðum í mjög stuttan tíma. Í flótta­manna­búðum er öryggi, hrein­læti, mat­vælum og að­búnaði veru­lega á­bóta­vant. Flótta­fólk hefur mjög skert að­gengi að hús­næðis­markaði og mikill fjöldi býr á götunni eftir að það fær vernd. Í sumum til­fellum á fólk ekkert til að skýla sér með nema pappa­spjöld,“ skrifar Sema.

Hún segir að þar sé einnig erfitt er fyrir fólk með vernd að sækja sér heil­brigðis­þjónustu m.a. vegna á­lags á gríska heil­brigðis­kerfinu. Gríðar­lega mikið at­vinnu­leysi er á meðal flótta­fólks í Grikk­landi. Flótta­fólk hefur skertan að­gang að at­vinnu og er mis­munað á at­vinnu­markaði. Flótta­fólk í Grikk­landi verður fyrir miklu of­beldi, kyn­ferðis­brotum og ras­isma, jafnt af höndum al­mennings sem og yfir­valda, t.d. lög­reglu.

Réttur flótta­fólks til fé­lags­legs stuðnings er nær enginn og hann er ó­að­gengi­legur. Flótta­fólk í Grikk­landi lifir sumt við hungur­sneyð.

„Mikill fjöldi flótta­barna gengur ekki í skóla í Grikk­landi og gögn benda til þess að rétturinn til menntunar sé ekki í öllum til­vikum virkur. Stór hluti þeirra flótta­barna sem koma hingað til lands eftir að hafa dvalið í Grikk­landi eiga við heilsu­fars­vanda­mál að stríða. Dæmi eru um að börn sem hingað hafa komið frá Grikk­landi þjáist af næringar­skorti. Tann­heilsu er al­mennt á­bóta­vant auk þess sem út­brot og húð­sjúk­dómar sem rekja má til ó­við­unandi hús­næðis eru al­geng. Mörg þeirra barna sem hingað koma frá Grikk­landi glíma við kvíða, svefn­vanda­mál og þroskafrá­vik sem rekja má til ó­við­unandi að­stæðna í Grikk­landi,“ skrifar Sema.

Hún bendir á að dóm­stólar ýmissa Evrópu­ríkja hafa úr­skurðað að ekki sé ó­hætt að endur­senda ein­stak­linga sem hlotið hafa al­þjóð­lega vernd til Grikk­lands þar sem hætta sé á að þar eigi þeir hættu á með­ferð sem jafn­gildi ó­mann­úð­legri eða van­virðandi með­ferð.

„Það þarf ekki laga­breytingu til að stöðva brott­vísanir og endur­sendingar á flótta­fólki frá Ís­landi til Grikk­lands, enda hafa bæði Út­lendinga­stofnun og kæru­nefnd út­lendinga­mála fallist á í ein­stökum málum að senda fólk ekki til baka og taka mál til efnis­með­ferðar hér á landi. Að vísa hátt í 300 ein­stak­lingum úr landi og í erfiðar að­stæður á einu bretti og um 100 af þeim í sér­stak­lega lífs­hættu­legar að­stæður í Grikk­landi er pólitísk á­kvörðun sem hægt er að breyta með einu penna­striki. Það er pólitísk á­kvörðun sem þú getur breytt!“ skrifar Sema að lokum.