Seinheppinn oddviti

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur verið mjög gagnrýninn á stjórn Sorpu og nýjasta málið snýr að myglugró sem fundist hefur í þaki og burðarvirki gas- og jarðgerðarstöðvarinnar Gaju, sem er ný af nálinni. Vart er hægt að skilja orð hans á annan veg en að stjórn Sorpu sé með öllu óhæf og ábyrg fyrir öllum þeim vandræðum sem dunið hafa yfir, hvort sem um ræðir umframkeyrslu kostnaðar eða nýfundin myglugró.

Ekki þarf mjög læsan mann á pólitík til að átta sig á að þessi gagnrýni oddvita sjálfstæðismanna er svokölluð Albaníuaðferð. Hann endurtekur í sífellu að borgin eigi meirihluta í Sorpu og þar með í Gaju og engum dylst að gagnrýnin á stjórn Sorpu er ætluð sem gagnrýni á meirihlutann í borginni.

Eyþór getur þess hins vegar ekki að þrátt fyrir að Borgin eigi næstum 2/3 hluta Sorpu er skýrt kveðið á um það í stofnsamningi samlagsins að hvert sveitarfélag skuli hafa einn fulltrúa í stjórn og einn varamann. Í sex manna stjórn Sorpu sitja:

  • Líf Magneudóttir, Reykjavík, Vinstri grænum, formaður
  • Ágúst Bjarni Garðarson, Hafnarfirði, Framsókn, varaformaður
  • Birkir Jón Jónsson, Kópavogi, Framsókn
  • Jóna Sæmundsdóttir, Garðabæ, Sjálfstæðisflokki
  • Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Mosfellsbæ, Sjálfstæðisflokki
  • Bjarni Torfi Álfþórsson, Seltjarnarnesi, Sjálfstæðisflokki

Sjálfstæðisflokkurinn er með helming stjórnarmanna í Sorpu og Framsókn tvo menn. Meirihlutinn í Reykjavík, og flokkarnir sem að honum standa, er með einn af sex stjórnarmönnum. Albaníuaðferð oddvita Sjálfstæðisflokksins hittir hann sjálfan fyrir og hans flokk en ekki meirihlutann í borginni.

Svo seinheppinn er Eyþór Arnalds, að gagnrýni hans beinist þegar allt kemur til alls fyrst og fremst að flokkssystkinum hans úr nágrannasveitarfélögunum og að einhverju marki að Framsóknarflokknum sem situr ásamt Sjálfstæðisflokknum í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Málflutningur oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sem gjarnan gagnrýnir rakalaust án þess að benda á tiltækar lausnir, er bergmál frá borgarmálapólitík liðinnar aldar þegar sumir töldu það sér til tekna að vera ávallt á móti hverju því sem pólitískir andstæðingar höfðu fram að færa. Sveitastjórnarmál samtímans – og raunar stjórnmál samtímans – kalla á aðra nálgun, þau kalla á málefnalega umræðu þar sem kjörnir fulltrúar leggja sig fram um að leysa vandamál sem upp koma og starfa af skynsemi og heilindum. Slík hugsun virðist vera sumum framandi.

- Ólafur Arnarson