Segjast fara í sótt­kví en mæta svo út í búð sam­dægurs – Ó­fyrir­gefan­legt, segir Inga

„Það er með öllu ó­fyrir­gefan­legt að taka þá á­hættu að veiran berist inn í landið með ferða­mönnum sem ættu undir þessum kring­um­stæðum alls ekki að komast hingað,“ segir Inga Sæ­land, þing­maður og for­maður Flokks fólksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Inga hefur talað fyrir strangari að­gerðum á landa­mærunum vegna CO­VID-19-far­aldursins, en eins og Hring­braut greindi frá í gær greindust 26 smit á landa­mærunum í fyrra­dag og hafa þau ekki verið fleiri síðan far­aldurinn fór af stað fyrir tæpu ári síðan.

Sjá einnig: Egill óttasleginn: Verður öllu lokað aftur? Brjálæðislegar tölur á landamærunum

„Sam­tals hafa nú í þremur bylgjum far­aldursins látist 29 ein­staklingar hér á landi af völdum veirunnar. Sótt­varna­læknir vonar að þær sótt­varnir sem við­hafðar eru á landa­mærunum haldi svo að við þurfum ekki að takast á við enn eina bylgju far­aldursins. Þrátt fyrir það er vitað að til eru þeir sem hirða ekkert um reglurnar, heldur segjast taka sótt­kví en eru svo mættir út í búð sam­dægurs.“

Að mati Ingu er það al­gjör­lega galið að bíða bara og vona. Reynslan ætti að hafa kennt okkur annað.

„Stjórn­völdum er í lófa lagið að koma í veg fyrir að ný af­brigði veirunnar berist inn í landið. Við erum búin að fá nóg af hringlanda­hætti þar sem „meðal­hóf“ og „efna­hagur“ eru sett skör hærra en líf okkar, frelsi og öryggi. Við áttum gott sumar sem leið. Við fylgdum reglum og stóðum saman. Verslun og þjónusta blómstraði á lands­byggðinni sl. sumar þrátt fyrir allt. Við áttum miklu betra skilið en að veirunni yrði hleypt inn í landið á ný.“

Inga segir að samningarnir um bólu­efni séu enn annað klúðrið og ó­sjálf­stæði okkar í utan­ríkis­málum fyrir löngu orðið að sjálf­stæðu þjóðar­meini.

„Það sannast nú, þegar við van­sæl bíðum sam­eigin­legt skips­brot með Evrópu­sam­bandinu sem við hengdum okkur al­farið á í út­vegun bólu­efnis. Ríkis­stjórnin virðist hafa skapað allt­of miklar væntingar sem ekki er inni­stæða fyrir. Bólu­efnið sem berst til landsins dugar vart upp í nös á ketti og enginn virðist vita hve­nær við fáum meira.“

Inga segir að ef stjórn­völd halda á­fram að taka á­hættu við landa­mærin og af­leiðingin verður fjórða bylgja far­aldursins með til­heyrandi ó­tíma­bærum dauðs­föllum og hörmungum, þá sé á­byrgðin al­gjör­lega þeirra hér eftir sem hingað til.

„Hér er um þjóðar­öryggis­mál að ræða. Stjórn­völd með heil­brigðis­ráð­herra í farar­broddi hafa líf okkar í höndunum, og ber að vernda það með öllum ráðum. Það er með öllu ó­fyrir­gefan­legt að taka þá á­hættu að veiran berist inn í landið með ferða­mönnum sem ættu undir þessum kring­um­stæðum alls ekki að komast hingað.“