Segir lögfræðinga hins opinbera oft vera við fátækramörk: „Þetta er íslenskur verkalýður“

„Margir að drulla yfir vinnandi millistétt. Það er sannarlega gamanað segja frá þér að kvenlögfræðingar sem vinna í stjórnsýslunni eru oftar en ekki fátækar. Sérstaklega ef þær eru einstæðar mæður,“ segir Dagbjört Hákonardóttir, lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg og frambjóðandi Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar, í færslu á Twitter. Færsla hennar um kjör lögfræðinga hjá hinu opinbera hefur vakið mikla athygli og hefur verið deilt af bæði Kristrúnu Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík, og Rögnu Sigurðardóttur, formanni Ungra jafnaðarmanna.

Dagbjört segir að hún noti konur sem viðmið þar sem að yfirgnæfandi meirihluti íslenskra kvenlögfræðinga starfi hjá hinu opinbera. „Þær eru með útborgaðar tekjur yfir 350.000 en fá ekki barnabætur. Afborgun (eða leiga?!) af 4 herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu fer hæglega upp í 200.000-300.000 og þá er daglega neyslan öll eftir. Framfærsluviðmið gera ráð fyrir 284.257 kr. fyrir einstakling með 1 barn,“ segir hún á Twitter. „Ég þekki þær allnokkrar sem hafa skilið eða slitið samböndum (eins og gengur og gerist). Um kvöld og helgar vinna þær í umönnunarstörfum til að eiga í sig og á, þ.e. í barnlausu vikunum. Svo eru það námslánin. Þetta er íslenskur verkalýður.“

Dagbjört segir að hún nefni sérstaklega lögfræðinga þar sem það hefi verið sett út á þátttöku þeirra á framboðslistum félagshyggjunar í aðdraganda kosninga, auk þess sem það er stéttin hennar. „Lögfræðingar eiga ekki tilkall til hærri launa en aðrir sambærilegir hópar, t.d. kennarar,“ bætir hún við.

Margir hafa sett spurningamerki við færslu Dagbjartar. Þar á meðal er Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sem spyr: „Hvað eru algeng heildar mánaðarlaun hjá lögfræðingum hjá hinu opinbera?“

Þá segir Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, að samkvæmt fjármálaráðuneytinu hafi meðallaun kvenna í Stéttarfélagi lögfræðinga verið 874.390 krónur á þessu ári. „Almennt er launadreifing minni hjá hinu opinbera en á almennum markaði. Einlæg spurning: Hvernig passar það við þessar lýsingar?,“ spyr Konráð.