Segja barns­hafandi konu hafa látist eftir bólu­setningu: „Ekki vera að dreifa þessu“

Færsla um and­lát ungrar ís­lenskrar konu í kjöl­far bólu­setningar hefur farið eins og eldur í sinu síðast­liðna viku en í færslunni er haldið fram að hún hafi látist fjórum tímum eftir að hafa fengið bólu­efni við Co­vid-19.

Maki konunnar á­kvað að stíga fram inn á Face­book hópnum Co­vid19 – opin um­ræða þar sem hann leið­rétti rang­færslurnar. „Vil bara taka fram að það er verið að dreifa röngum upp­lýsingum um konuna mína heitna,“ skrifaði makinn.

Hann sagði að barns­hafandi konan sín hafi ekki farið í bólu­setningu, en að hún hafi látist eftir að blóð­tappi myndaðist í lungum hennar þann 17. maí síðast­liðinn. „Hún vissi að hún mátti ekki fara í bólu­setningu fyrr en hún var komin 20 vikur á leið, en hún var bara komin 19 vikur.“

Hann greinir einnig frá því að bæði aldur konunnar og aðrar upp­lýsingar um hana hefðu verið rangar í færslunni. „Vil biðja ykkur um að taka ekki mark á þessu rugli og ekki vera að dreifa þessu.“

Í um­ræddri færslu kom fram að konan hafi látist úr blóð­tappa í heila fjórum klukku­stundum eftir að hún hafi verið bólu­sett gegn Co­vid-19. „Aldrei bólu­setja ó­léttar konur,“ stóð yfir mynd af konunni þar sem rangur aldur hennar var birtur.