Segir Sigurð ljúga upp á sig starfslokasamningi

Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir, meistaranemi í fíknifræðum og rithöfundur, sakar Sigurð Friðriksson, fyrrverandi stjórnarmannn í SÁÁ, um að ljúga upp á sig starfslokasamningi.

Sigurður ræddi um stöðuna innan SÁÁ í Morgunblaðinu í aðdraganda kosninga sem fara fram á þriðjudaginn. Þar verður kjörinn verður nýr formaður og 16 stjórnarmenn í 48 manna stjórn samtakanna.

Núverandi formaður, Arnþór Jónsson, ákvað að stíga til hliðar eftir aðalfund en hann telur að verið sé að koma samtökunum undir stjórn ríkisins. Sigurður sagði af sér sem stjórnarmaður vegna þessara ásakana en hann segir ógnarstjórn hafa viðgengist lengi innan veggja SÁÁ.

„Hugsaðu þér ósvífnina í þessu“

Í Morgunblaðinu segir Sigurður að á sama tíma og skorið sé niður hjá SÁÁ sé verið að gera starfslokasamninga sem ekki þurfti að gera. „Síðan gerir formaðurinn sjálfur, Arnþór Jónsson, starfslokasamning við sambýliskonuna sína. Hugsaðu þér ósvífnina í þessu,“ segir hann en Hugrún er sambýliskona Arnþórs.

Hugrún, sem er að ljúka meistaragráðu í fíknifræðum og hefur unnið í fjölmörg ár í málaflokki fólks með fíknisjúkdóm, segir Sigurð ljúga upp á sig starfslokasamningi. Hún segist hafa verið lánsöm að fá strax nýja vinnu hjá borginni.

„Í mars ákvað ég að skipta um starfsvettvang af persónulegum ástæðum og við þau tímamót var ekki gerður neinn starfslokasamningur milli mín og SÁÁ. Ég hvorki vann, né fékk greiddan uppsagnarfrest því ég var svo lánsöm að fá strax nýja vinnu hjá borginni, við það sem ég brenn fyrir, og er í dag teymisstjóri á gistiskýlinu á Granda.“