Segir RÚV hafa gefist upp fyrir ensku­slettum og beygingar­villum

Óttar Guð­munds­son, geð­læknir hjólar í Ríkis­út­varpið í bak­þönkum Frétta­blaðsins í dag.

„Þegar ég var yngri ein­kenndist lífið af ó­þolin­mæði. Ég var alltaf hneykslaður eða móðgaður og sí­fellt á hrað­ferð. Þetta hélt ég að lagaðist með aldrinum og ég mundi breytast í þolin­móðan og æðru­lausan Búdda í manns­mynd. Sú hefur þó alls ekki orðið raunin heldur hefur ó­þolið farið vaxandi,“ skrifar Óttar.

„Ég nenni t.d. ekki lengur að lesa langar færslur um þing­konuna í Val­s­peysunni eða drykkju­raus Fram­sóknar­manna á Búnaðar­þingi. Drýldnar kenningar fyrrum for­seta lýð­veldisins um eðli­legar á­stæður fyrir fjölda­morðunum í Úkraínu og hug­leiðingar stjórn­mála­fræðinga um skoðana­kannanir falla í þennan sama flokk,“ heldur hann á­fram áður en hann snýr sér að RÚV.

„Á dögunum þegar ég var á leið til vinnu var kynntur til sögunnar á RÚV ís­lensku­fræðingur til að ræða um ný­út­komna bók sína. Ég flýtti mér að skipta yfir á um­fjöllun um heima­slátrun á annarri stöð í ó­þolin­mæðis­kasti.

„Í starfi mínu hitti ég mikið af fólki sem er vart mælandi lengur á ís­lensku. Ensk orð og orða­til­tæki eru því tamari en móður­málið. Margir harma þetta en þessi ís­lensku­fræðingur segir um eðli­lega þróun tungu­málsins sé að ræða. Hin fræga þágu­falls­sýki hljómar sem hunang í hans eyrum og ber vitni um að­lögunar­hæfni málsins,“ skrifar Óttar.

Hann segir það til merkis um hækkandi aldur og geð­vonsku að honum leiðist undan­hald ís­lenskunnar.

„RÚV hefur al­gjör­lega gefist upp gagn­vart ensku­slettum og beygingar­villum. Mér finnst það skrítið að ís­lensku­fræðingur skuli reka flóttann og segja mál­villur vera á­sættan­lega og eðli­lega þróun.“

„Snorri frændi minn Sturlu­son vitjaði mín reyndar á dögunum í draumi og fletti þung­brýnn gegnum skrif nú­tíma­pólitíkusa og þekktra á­lits­gjafa. „Eigi skal sletta,“ sagði hann og hvarf síðan tár­fellandi inní ei­lífðina,“ skrifar Óttar að lokum.