Segir réttarkerfið standa með ofbeldismönnum: „Það er bara verið að brjóta á mér aftur“

Linda Gunnarsdóttir er ein þeirra sem hefur nú stigið fram til að segja sína sögu af ofbeldi en hún lagði fram kæru gegn fyrrverandi sambýlismanni sínum fyrir ári síðan. Hún var 29 ára þegar sambandið hófst og var að eigin sögn brotin andlega þegar þau hittust. „Það er kannski eitthvað sem hann leitaðist eftir,“ segir Linda í samtali við Fréttablaðið.

Í viðtali við Fréttablaðið segir hún að umræðan um meint brot fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar hafi ýft upp gömul sár. Fyrrverandi sambýlismaður Lindu hefur einnig fengið töluvert pláss í fjölmiðlum og hafa jafnvel birst af honum stórar myndir á strætóskýlum.

Linda er ein þriggja kvenna sem hafa lagt fram kæru gegn manninum en þeim var komið í samband við hvor aðra í kjölfar umfjöllunarinnar. Þrjár konur til viðbótar hafa greint frá ofbeldi af hans hálfu en ekki treyst sér til að kæra.

„Það er trigger fyrir okkur að hann væri skyndilega kominn inn í stofu til okkar. Þess vegna fóru allir að tala um reynslu sína aftur og þannig komumst við í samskipti, en við þekktumst ekkert áður. Við héldum allar að við stæðum einar með okkar sögu og þegar við heyrðum af hinum varð áfallið enn stærra enda sást þá að ofbeldið var kerfisbundið,“ segir Linda í viðtalinu.

Andlegt og líkamlegt ofbeldi

Linda lýsir því að í upphafi hafi aðallega verið um andlegt ofbeldi að ræða. „Ég sagði einhvern tíma við hann: „Værirðu einhvern tíma til í að hrósa mér?“ En hans svar var: „Nei, ég ætla ekki að hrósa þér, ég ætla að brjóta þig niður svo ég geti í framhaldi byggt þig upp eins og ég vil hafa þig.“

Kornið sem fyllti mælinn var þó þegar Linda komst að því að maðurinn væri að sofa hjá annarri konu eftir fyllerí. „Ég vakti hann og sagði honum að drulla sér út – þetta væri búið. Hann kýldi mig í andlitið svo það sprakk á mér vörin. Ég reyndi að segja honum að fara út en hann hélt áfram að láta höggin dynja.“

„Hann tók beltið af buxunum sínum og sló mig með sylgjunni í bakið. Ég er hágrenjandi þegar hann kemur á eftir mér inn í stofu og hrindir mér þannig að ég dett í gólfið á öxlina og finn strax að það er eitthvað mikið að. Ég ligg þarna hágrenjandi og hann fer inn í rúm að sofa,“ lýsir Linda.

Segir réttarkerfið standa með ofbeldismanninum

Linda hringdi í kjölfarið í vinkonu sína sem fór með hana á bráðamóttöku en aðspurð þar hvað hafi átt sér stað sagðist hún hafa dottið. Þegar ýtt var á hana játaði hún loks hvað hefði gerst. „Þá var tekin skýrsla af mér og myndir. Í ljós kom að ég var viðbeinsbrotin, með sprungna vör, með áverka á höfði og sár, ég var með handaför á bakinu, og á kviðnum sem var hringlaga, eins á bakinu og með mar á úlnliði og rist.“

Hún sleit að lokum sambandinu en kærði manninn ekki fyrr en fimm árum síðar þar sem hún kvaðst ekki hafa áttað sig almennilega á hverju hún hafi orðið fyrir. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vísaði kærunni þó frá þar sem um var að ræða orð gegn orði, þrátt fyrir að hún hafi verið með vitni sem sótti hana, áverkavottorð og myndir.

„Mér finnst ég hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu gerandans og nú aftur af hálfu lögreglunnar. Það er bara verið að brjóta á mér aftur. Það er ekkert réttlæti, ekki neitt. Það að mitt mál hafi verið fellt niður með öll þessi gögn, þegar ég loksins kæri hann eftir allan þennan tíma, sýnir að réttarkerfið stendur með ofbeldismanninum en ekki þolanda og hann fær að njóta vafans.“

Linda hefur nú kært frávísun lögreglu og fer fram á að málið verði tekið aftur upp en svara er að vænta í næstu viku.

„Svona menn þarf að stoppa og réttarkerfið þarf að standa með okkur. Markmið mitt er að fá réttlætið fram þar sem augljóslega var brotið á mér og aðallega að reyna að koma í veg fyrir það að menn eins og hann komist upp með slíkt ofbeldi gagnvart konum,“ segir Linda.

Viðtalið við Lindu í heild sinni má finna hér.