Segir mögulegt að um svikalogn sé að ræða og vísar til þriðju bylgjunnar: „Það kom aldeilis í bakið á okkur“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mögulegt að um sé að ræða hálfgert svikalogn þegar kemur að alvarlegum veikindum hjá yngri einstaklingum en breska afbrigði veirunnar sem er nú á kreiki í samfélaginu leggst helst á yngri einstaklinga. Enginn er nú á spítala vegna COVID-19 en fljótt geta veður skipast í lofti.

„Það er ánægjulegt að enginn hafi orðið mjög veikur en það kann að vera að það sé svikalogn, það var líka þannig í byrjun þriðju bylgjunnar að það gerðist ekki mikið og þá fengum við gagnrýni fyrir að veiran sem þá væri að ganga væri miklu vægari en fyrsta bylgjan. Það kom aldeilis í bakið á okkur,“ sagði Þórólfur í viðtali í Víglínunni á Stöð 2 í kvöld.

„Ég er alveg viss um það að ef við missum veiruna út í samfélagið núna að þá fáum við meira af alvarlegri sýkingum hjá yngri fólki en við höfum verið að sjá,“ sagði Þórólfur enn fremur og vísaði til þess að veikindi geta tekið nokkurn tíma að koma fram. Þau væru eftir fremsta megni að reyna að draga lærdóm af fyrri bylgjum faraldursins.

Þá sagði Þórólfur ýmis dæmi um það að fólk væri ekki að virða reglur um einangrun og það þurfi lítið til að veiran nái aftur fótfestu í samfélaginu. Aðspurður um hvenær sé gert ráð fyrir að hjarðónæmi gæti náðst hér á landi, og þar með þyrfti síður að grípa til hertra aðgerða, segir Þórólfur að það sé miðað við 50 prósent en það geti allt breyst.

Þórólfur var einnig spurður út í meint misræmi milli orðræðu hans í upphafi faraldursins og nú, þar sem nokkrir vilja meina að Þórólfur tali nú um veirufrítt samfélag en ekki aðeins að fletja niður kúrvuna til að vernda heilbrigðiskerfið. Hann gefur lítið fyrir umræður um að hann tali nú öðruvísi.

„Við vissum ekkert hvaða árangri við myndum ná með þessum aðgerðum. En þegar við sáum strax í fyrstu bylgjunni að með aðgerðum þá gátum við útrýmt veirunni úr samfélaginu, við sáum það líka í þriðju bylgjunni, að þá höfum við sagt, reynum að ná þessari veiru eins mikið niður og mögulegt er og í því felst líka veirufrítt samfélag,“ sagði Þórólfur.

„En við erum líka búin að sjá að einn smitaður einstaklingur sem gætir ekki að sér, sérstaklega þegar við erum með litlar takmarkanir innanlands, getur dreift smitinu út um allt og þá bara fáum við aðra bylgju einn tveir og þrír.“

„Við getum ekki stýrt því þannig eins og í tölvuleik að við segjum bara, nú höfum við bara tíu smit, við þurfum að halda því í sirka tíu, hafa tíu inni á spítalanum, þetta bara virkar ekki þannig,“ sagði Þórólfur enn fremur. „Það kemur mér mjög mikið á óvart að fólk sé að segja, heyrðu sóttvarnalæknir er farinn að tala allt öðruvísi en hann hefur talað. Ég hef ekki talað öðruvísi en ég hef gert.“