Segir ljóst að Þórólfur telji að ríkisstjórnin hlusti ekki

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, segir ljóst að sóttvarnalæknir telji að ríkisstjórnin hafi ekki hlustað á tillögur hans um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 hér á landi en Þórólfur Guðnason greindi frá því í gær að hann teldi tímabært að ríkisstjórnin tæki við boltanum.

„Hann er augljóslega bara að segja að ríkisstjórnin er ekki lengur að hlusta á okkur þannig að hún ber ábyrgð á þeim aðgerðum sem þau fara í,“ segir Helga Vala í samtali við Fréttablaðið í dag. Velferðarnefnd kemur til með að funda um stöðu faraldursins síðar í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála.

Sjá einnig: Að minnsta kosti 116 smit í gær: Aldrei fleiri í einangrun

Gestir fundarins verða Alma Möller landlæknir, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði, Már Kristinsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

„Nefndin ætlar bara að spyrja út í stöðuna, út í faraldurinn sjálfan. Þau eru ekkert að svara fyrir það hvað ríkisstjórnin er að gera, bara staðan á faraldrinum,“ segir Helga Vala.

Eins og staðan er í dag er 200 manna samkomubann á landinu öllu, eins metra regla og grímuskylda, en núverandi reglugerð er í gildi til 13. ágúst næstkomandi. Rúm vika er liðin frá því að gripið var til aðgerða og mun næsta vika segja til um árangur þeirra aðgerða.