Segir lækna tala fyrir hörðum að­gerðum til að fá meira fjár­magn til Land­spítalans

Jón Steinar Gunn­laugs­son, lög­maður, gagn­rýnir sótt­varna­að­gerðir yfir­valda í pistli í Morgun­blaðinu í dag og segir enga á­stæðu til að loka fólk inni og loka fyrir­tækjum vegna Omíkron-af­brigðis kórónu­veirunnar. Þá gagn­rýnir hann lækna sem vilja hafa strangar sótt­varnig og spyr hvort það sé ekki bara gert til að fá meira fjár­magn inn til Land­spítalans.

„Þar með liggur fyrir að vel yfir 99% af þeim sem smitast verða lítt eða ekki veik. Samt er haldið á­fram að skerða frelsi manna í stórum stíl. At­vinnu­fyrir­tækjum er lokað og ein­stak­lingum er bannað að fara út úr húsi. Þetta er allt saman full­frískt fólk sem stjórn­völd segjast beita þessu valdi til að forðast út­breiðslu smits. Beitt er hræðslu­á­róðri til að halda þessum stjórn­tökum uppi. Talað er um að „hóp­smit“ sé yfir­vofandi, án þess að gera grein fyrir hættunni sem af því á að stafa. Það er eins og sumir læknar telji sjálf­sagt að beita menn þessu valdi. Þeir viti betur en sauð­svartur al­múginn hvað honum er fyrir bestu. Samt eru það gömul og ný sannindi að bestu varð­menn hags­muna ein­stak­linga eru þeir sjálfir,“ segir Jón Steinar í pistlinum.

Hann segir enga þörf til að beita slíkum brögðum til að hindra út­breiðslu Co­vid vegna þess að því fylgir svo lítil á­hætta, að hans mati, að smitast.

„Kannski er bara best að sem flestir smitist af veirunni sem nú orðið má telja sak­lausa. Þannig hlýtur svo­nefnt hjarðó­næmi að nást fyrr en ella,“ segir Jón Steinar í pistlinum.

Þar segir hann sótt­varna­að­gerðir hafa eyði­lagt Evrópu­mótið í hand­bolta sem nú fer fram þar sem smitaðir leik­menn þurfa að halda sig inni á her­bergi og mega ekki spila, full­frískir.

„Hér er allt of miklu fórnað fyrir lítið. Per­sónu­legt frelsi með á­byrgð telst til þeirra lífs­hátta sem við viljum við­hafa. Látum ekki ein­sýna lækna villa okkur sýn. Kannski eru þeir bara að búa til stöðu sem þeir telja að þrýsti á um hærri fram­lög úr ríkis­sjóði (les: frá skatt­greið­endum) til Land­spítalans? Hlustum frekar á þá virðingar­verðu starfs­bræður þeirra sem vilja ekki taka þátt í þessu of­ríki og mæla með af­léttingu vald­beitingarinnar,“ segir Jón Steinar að lokum.

Pistillinn er einnig að­gengi­legur á vef­síðu hans hér.