Segir Brynjar 100 sinnum dýrmætari sínu samfélagi en þann sem fylgir alltaf hjörðinni

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þykir með umdeildari þingmönnum þessa lands. Brynjar fer sínar eigin leiðir og segir sínar skoðanir umbúðalaust. Það er kannski það sem fer fyrir brjóstið á mörgum.

Nú hefur Brynjar fengið stuðning úr nokkuð óvæntri átt en Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, tekur upp hanskann fyrir Brynjari á Facebook-síðu sinni. Björn Ingi segir:

„Stjórnmálamaður eins og Brynjar Níelsson sem þorir að segja skoðun sína og fylgja eigin sannfæringu er hundrað sinnum dýrmætari hverju samfélagi en stjórnmálamaðurinn sem fylgir alltaf hjörðinni og meginstraumum hverju sinni -- segir eitt en hugsar annað. Þetta vildi ég sagt hafa.“

Sitt sýnist hverjum um þennan stutta pistil Björns Inga en margir taka þó undir með honum. „Og hér er ekkert ofmælt. Nóg er af pólitíska draslinu, svo ekki meira sé sagt,“ segir Gústaf Níelsson en undirtektir hans þurfa ekki að koma á óvart enda Brynjar yngri bróðir hans.