Segir að skotmaðurinn hafi ætlað að drepa hann og son hans: „Hvað er annað hægt að kalla þetta?“

Maðurinn sem skotið var að í Hafnarfirði í gær segir að maðurinn hafi augljóslega reynt að drepa hann og son hans. Þeir eru báðir í miklu áfalli eftir atvikið.

Mateusz Dariusz er sá sem skotið var á, en hann ræddi málið í kvöldfréttum RÚV í kvöld.

„Svo heyrði ég einhvers konar smell. Fyrst hélt ég að þetta væru einhver hljóð í bílnum, að eitthvað skemmdist. Smellurinn var ekki mjög hár en vel heyranlegur. Nokkrum sekúndum síðar heyrði ég annan smell en hærri og svo fann ég fyrir gleri rigna á bakið og höfuðið á mér,“ sagði Mateusz.

Mateusz opnaði því næst hurðina á bílnum til að athuga hvað hafi gerst, þegar hann sér mann á svölunum með byssu.

„Ég hrópaði á hann „hvað ertu að gera?" og „hættu þessu" og sagði að ég ætlaði að hringja í lögreglu. Svo hringdi ég strax í lögreglu. Það var hvort sem er enginn annar á bílastæðinu nema við feðgarnir.“

Hann segir að hann hafi spurt manninn afhverju hann væri að þessu, sem maðurinn svaraði að hann héldi að Mateusz væri einhvers konar glæpamaður.

Mateusz segir að atvikið hafi tekið mjög á hann og son hans. Hann vonar að þetta ahfi ekki varanleg áhrif á hann.

„Mér myndi aldrei detta í hug að eitthvað slíkt gæti komið hérna upp. Ég er í miklu uppnámi. Guði sé lof að ég er á lífi. Sonur minn er á lífi og enginn annar hefur meiðst í þessum hræðilega atburði.“

Viðtalið við Mateusz má sjá á vef RÚV.

Fleiri fréttir