Sauð upp úr fyrir utan skemmtistað: Fórnarlambið missti heyrn á öðru eyra og blæðingu á heila

Héraðs­dómur Reykja­ness hefur dæmt karl­mann í þriggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir stór­fellda líkams­á­rás. Á­rásin hafði í för með sér al­var­legar af­leiðingar fyrir fórnar­lambið.

At­vikið átti sér stað að­fara­nótt laugar­dagsins 24. nóvember 2018 fyrir utan ó­nefndan skemmti­stað. Sam­kvæmt á­kæru veittist maðurinn að öðrum manni og ýtti við honum með þeim af­leiðingum að við­komandi skall með hnakkann í götuna. Hlaut hann höfuð­kúpu­brot, blæðingu inn á heila og brest í bein­himnu sem leiddi til þess að bragð- og lyktar­skyn skertist og hann missti heyrn á hægra eyra.

Á­rásar­maðurinn játaði sök af­dráttar­laust fyrir dómi en hann hefur ekki áður orðið upp­vís að refsi­verði hátt­semi svo kunnugt sé. Í niður­stöðu dómara kemur fram að brot á­kærða hafi ekki verið sér­stak­lega hættu­legt í skilningi al­mennra hegningar­laga, en þegar virtar séu af­leiðingar á­rásarinnar verði hún heim­færð undir það laga­á­kvæði.

„Á­kærði hefur því í máli þessu verið sak­felldur fyrir stór­fellda líkams­á­rás sem hafði í för með sér al­var­legar af­leiðingar fyrir brota­þola. Á­kærði hefur hins vegar gert sam­komu­lag við brota­þola um greiðslu miska­bóta sem hefur veru­lega þýðingu varðandi refsi­á­kvörðun í málinu,“ segir í niður­stöðunni.

Fangelsis­dómurinn yfir manninum er skil­orðs­bundinn til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða máls­varnar­laun verjanda síns, 558 þúsund krónur og þóknun réttar­gæslu­manns brota­þola, einnig 558 þúsund krónur.