Sara um lífið í Banda­ríkjunum: Eigin­maðurinn faldi peningana út um allt

„Auð­vitað var ég ekkert á­nægð með þetta og maður er ekki öruggur með þetta í húsinu,” segir Sara Heimis­dóttir, eða Sara Piana, í við­tali í nýjasta hlað­varps­þætti Sölva Tryggva­sonar.

Margir Ís­lendingar þekkja Söru sem bjó lengi vel í Banda­ríkjunum þar sem hún var gift krafta­karlinum Rich Piana. Í við­talinu fara þau Sölvi um víðan völl og ræða meðal annars árin í Banda­ríkjunum. Sara er nú flutt til Ís­lands þar sem hún ætlar að hefja nýjan kafla í lífi sínu.

Í þættinum segir hún meðal annars sögur af því hvernig heimili hennar og Rich Piana var fullt af peningum og sterum í öllum hornum þegar líferni Rich náði há­marki.

Keypti fyrir 30 milljónir

„Hann var með vin sinn sem fram­leiddi sterana, alls konar tegundir og kom alltaf með þá. Hann keypti stera af þessum strák fyrir 30 milljónir ís­lenskar mánaðar­lega. Og seldi það svo á­fram til annarra. Það voru stera­kassar úti um alla íbúð og þegar verst var gat maður ekki þver­fótað fyrir þessu hel­víti. Þetta var bók­staf­lega úti um allt. Svo kom fólk heim til okkar eða hitti á hann í ræktinni til að kaupa af honum. Hver og einn aðili keypti mjög mikið magn, sem þeir voru síðan sjálfir að selja. Auð­vitað var ég ekkert á­nægð með þetta og maður er ekki öruggur með þetta í húsinu. Maður veit aldrei hvort eða hve­nær löggan kemur og bara að ég sé á staðnum þýðir að ég sé ekki í góðum málum,“ segir Sara, sem segir að þetta hafi smátt og smátt aukist og að hún hafi verið orðin allt of sam­dauna þessu líferni.

„Ég komst ekkert að þessu í byrjun sam­bandsins, það var ekki fyrr en við byrjuðum að búa saman sem þetta kom upp á yfir­borðið og var í miklu, miklu minna magni fyrst um sinn. En strákurinn sem var að búa þetta til fyrir hann var með verk­smiðju til að gera þetta allt saman sem að ég kom aldrei inn í. En svo sá ég bara magnið þegar þetta kom til okkar mánaðar­lega og það var ekkert smá­ræði. Svo fylgir þessu auð­vitað mikið reiðu­fé og hann geymdi peninga úti um allt. Hann faldi seðla í boxpúðum, ljósa­krónum og á fleiri stöðum um alla íbúð. Hann var mjög á móti því að grafa peningana, þannig að þetta var falið alls staðar þar sem hægt var að geyma peninga.”

Fór alla leið

Rich Piana var þekktur fyrir að vera hrika­legur í út­liti og Sara segir að hann hafi ekki bara verið svona stór og mikill af lyftingum og stera­notkun:

„Hann sprautaði líka PMMA í vöðvana, sem virkar svipað og silikon og stækkaði hann allan. Ég kann ekki alveg að út­skýra hvernig það virkar, en hann sprautaði því á marga staði í líkamann á sér. Hann var bara rosa­lega „Extreme“ með allt í sínu lífi. Það var bara farið alla leið.“

Sara segist ekki hafa hugsað sér þessa tegund af lífi þegar þau kynntust og segir eftir á að hyggja hafi þetta verið mjög skraut­legt á köflum, en að á endanum sé þetta allt saman lífs­reynsla og að hún sjái ekki eftir neinu. Mögu­lega hafi hún enn verið með skekkju í sér eftir langt of­beldis­sam­band sem hún var í þegar hún var yngri, sem endaði með því að hún þurfti að flýja land.

Hrikalegur tími

„Þetta er án vafa versti tími lífs míns og ég var bara orðin skugginn af sjálfri mér. Þegar maður er í of­beldis­sam­bandi af þessu tagi verður maður bara hræddur við allt. Það er erfitt að skilja það fyrir þá sem hafa ekki prófað hvernig er að vera í þeirri stöðu að vera bara barinn í spað ef maður gerir eitt­hvað sem aðilanum mis­líkar. Það gerðist í­trekað að ég var dregin á hárinu, hent í gólfið og sparkað í mig aftur og aftur og í raun bara of margt til að telja það upp. Hann hótaði því í­trekað að drepa mömmu mína, en alltaf þegar hún reyndi að kæra frétti hann af því af því að hann var með ein­hvern innan­búðar­mann inni í lög­reglunni. Og þá varð allt bara tíu sinnum verra. Hann braut oft rúður í íbúð mömmu minnar og rústaði bílnum hennar og fleira í þeim dúr. Þannig að óttinn var bara orðinn al­gjör.”

Fékk lögreglufylgd í flugvélina

Sara segir að það hafi tekið sig mjög langan tíma að finna rétta tíma­punktinn til að flýja.

„Þetta náði loksins því stigi að ég hugsaði að ég myndi deyja ef ég kæmist ekki í burtu og ég yrði að flýja. Mamma var búin að bíða í bílnum í ná­grenni við í­búðina í nærri 3 daga sam­fellt þegar rétta tæki­færið kom þegar hann var sofandi. Þegar ég loksins komst út var ég keyrð beint upp á spítala, enda var ég gjör­sam­lega í tætlum. Búið að rífa af mér mikið af hárinu og öll blá og marin. Ég var ekki skráð inn á spítalann af ótta við að hann gæti fundið mig og síðan um morguninn fór ég beinustu leið upp á flug­völl. Lög­reglan fylgdi mér alla leið frá spítalanum og alveg inn í flug­vélina, af því að hann var með tengsl út um allt.“

Sara segist gífur­lega glöð yfir því að vera komin aftur til Ís­lands eftir öll þessi ár er­lendis:

„Það tók mig mánuð að komast heim. Öllum flugum alltaf frestað og á­standið í Banda­ríkjunum er bara ekki skemmti­legt. Þannig að ég var mjög feginn þegar ég komst loksins í burtu þaðan,” segir Sara, sem lærir nú Hjúkrunar­fræði við Há­skólann á Akur­eyri.

„Það er bara æðis­legt að vera komin aftur heim og ég er mjög bjart­sýn fyrir fram­tíðinni og hlakka til þess að byrja þennan nýja kafla.“

Í þættinum ræða Sölvi og Sara um tíma­bilið þegar hún fór langt inn í Fit­ness-heiminn eftir að hún flutti til Banda­ríkjanna og síðan frá skraut­legu líferni sínu með Rich Piana, sem oft var öðru­vísi en það virkaði út á við. Sara lærir nú hjúkrunar­fræði og hlakkar til næsta kafla í sínu lífi, eftir að hafa fengið marg­faldan ævi­skammt af dramatík, eins og hún segir sjálf.