Sár von­brigði þremur árum eftir að hafa lagt nafn sitt til stuðnings Katrínu

16. september 2020
09:04
Fréttir & pistlar

„Fyrir tæpum þremur árum heimilaði ég að nafn mitt væri sett undir heil­síðu­aug­lýsingu í dag­blöðum þar sem stóð: „Við teljum að Katrín Jakobs­dóttir sé best til þess fallin að veita nýrri ríkis­stjórn for­ystu.“

Þetta segir Ei­ríkur Rögn­valds­son, fyrr­verandi prófessor í ís­lenskri mál­fræði við Há­skóla Ís­lands, á Face­book-síðu sinni. Ei­ríkur skrifar þar um mál egypsku fjöl­skyldunnar sem vísað var úr landi í morgun.

Sjá einnig: Magnús: Slökkt á síma fjölskyldunnar í morgun - „Ég er yfirbugaður af sorg og reiði“

Ei­ríkur rifjar upp að Ei­ríkur hafi stutt Katrínu eftir síðustu kosningar þó hann hefði ekki kosið flokk hennar, Vinstri græna. „En ég meinti þetta – ég hafði þekkt Katrínu í rúm 20 ár og veit að hún er ó­trú­lega klár, dug­leg, skipu­leg og skemmti­leg. Og góð manneskja,“ segir Ei­ríkur.

Hann bætir við að það hafi valdið honum von­brigðum að hún skyldi fara í stjórn með Sjálf­stæðis­flokknum, en honum hafi svo sem ekki komið við hvernig stjórn hún myndaði. Segir Ei­ríkur að þrátt fyrir að vera ó­sáttur við að­gerðir – og að­gerða­leysi – ríkis­stjórnar hennar í ýmsum málum hafi hún á margan hátt staðið sig vel sem for­sætis­ráð­herra.

„Þangað til núna. Að hún skuli ekki stöðva brott­vísun fólks EFTIR AÐ hafa sagt að það hafi verið ó­mann­úð­legt hversu langan tíma málið hefur tekið, heldur beita orð­hengils­hætti í svörum við spurningum, er ó­fyrir­gefan­legt. Því að auð­vitað gat hún stöðvað þetta ef hún vildi, og ég trúði því ein­læg­lega þangað til núna að hún myndi gera það. Von­brigði mín eru ó­segjan­lega mikil,“ segir Ei­ríkur.