Sandra hvetur fólk til að banka í húddið áður en bíllinn er settur í gang

Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, lætur sig velferð dýra mjög varða. Hún birti þarfa áminningu á Twitter-síðu sinni í gær sem vakið hefur talsverða athygli.

„Viljið þið PLÍS banka á húddið áður en þið kveikið á bílnum ykkar?“ Ein hjá okkur í Dýrfinnu þurfti að ná í stórslasaða kisu sem var í vélarrími í bílnum hjá einhverjum og flæktist í viftunni. Er núna í svæfingu fyrir skoðun. Eitt bank. Þið gætuð bjargað lífi.“

Færsla Söndru hefur fengið yfir 300 læk á Twitter og þá hafa fjölmargir deilt henni. Kettir og jafnvel önnur dýr eiga það til að laumast undir bíla og í hlýjuna sem stundum má finna í vélarrúminu. Eins og gefur að skilja getur það reynst stórhættulegt sé bíllinn settur í gang eins og Sandra bendir á.

Sandra færði fylgjendum sínum svo þær sorgarfréttir eftir hádegið að kisan hefði dáið í nótt.

Margir taka undir með Söndru og segir til dæmis í einni heldur sorglegri athugasemd: „Hef lent í því að ræsa bíl að morgni, heyri hátt og snökt kvæs og búið. Drep a bílnum, opna húddið… Ég ætla ekki lýsa því sem ég sá, skilaði ólinni til eigandans.“