Sam­komu­bannið rýmkað: Þetta breytist á mánu­dag

Ný aug­lýsing heil­brigðis­ráð­herra um tak­mörkun á sam­komum vegna far­sóttar tekur gildi mánu­daginn 25. maí. Þar með verður allt að 200 manns heimilt að koma saman í stað 50 nú.

Á vef heil­brigðis­ráðu­neytisins er bent á að mánu­dag verði heimilt að opna líkams­ræktar­stöðvar með sömu tak­mörkunum og gilda um sund- og bað­staði og öllum veitinga­stöðum, þar með töldum krám og skemmti­stöðum, og einnig spila­sölum, verður heimilt að hafa opið til kl. 23.00.

„Hvatt er til þess að við­halda tveggja metra ná­lægðar­mörkum eftir því sem kostur er, eins og nánar er fjallað um í aug­lýsingunni. Aug­lýsingin er í fullu sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis. Ráð­herra kynnti á­kvörðun sína um breytingar á tak­mörkun á sam­komum á fundi ríkis­stjórnar í morgun,“ segir í til­kynningu ráðu­neytisins.

Þá segir að með nýrri aug­lýsingu verði fram­kvæmd tveggja metra reglurnar breytt nokkuð. Horft sé til þess að vernda þá sem eru við­kvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa að­stæður til að við­halda tveggja metra fjar­lægðar­reglu. Þannig verði til dæmis á veitinga­stöðum, í leik­húsum og bíó­sölum boðið upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem geri þetta kleift.

„Á líkams­ræktar­stöðvum verður, líkt og á á sund- og bað­stöðum, tak­mörkun á fjölda gesta sem miðast við að þeir séu aldrei fleiri en nemur helmingi af leyfi­legum há­marks­fjölda sam­kvæmt starfs­leyfi. Eins og fram kemur í aug­lýsingunni verða á­fram gerðar sömu kröfur um sótt­hreinsun og þrif al­mennings­rýma og hingað til.“

Stað­fest smit af völdum CO­VID-19 eru rúm­lega 1.800 frá upp­hafi far­aldursins hér á landi en það sem af er maí­mánuði hafa að­eins fimm smit greinst. Í minnis­blaði sótt­varna­læknis segir að þær til­slakanir sem gerðar voru á sam­komu­tak­mörkunum 4. maí síðast­liðinn virðist ekki hafa leitt til fjölgunar sjúk­dóms­til­fella.