Samfylkingin stærst og stjórnarflokkarnir í bullandi vanda

Samkvæmt nýrri Gallupkönnun mælist Samfylkingin stærsti flokkur landsins með 25,3 prósent og 17 þingmenn en fékk 8 í síðustu kosningum. Flokkurinn hefur ekki mælst stærstur á Íslandi síðan 2009. Hér er því um talsverð tíðindi að ræða.

Sjálfstæðisflokkurinn er næstur samkvæmt þessari könnun, fengi 23,5 prósent og 16 þingmenn kjörna. Tapar aðeins fylgi frá kosningunum 2021. Vinstri græn tapa hins vegar miklu frá kosningunum, fengi stuðning 6,8 prósent kjósenda og einungis fjóra þingmenn kjörna. Býsna dapurleg staða hjá leiðtoga vinstri stjórnarinnar, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra sem hóf stjórnarsamstarfið árið 2017 með 17 prósent fylgi og ellefu manna þingflokk. Með þessu áframhaldi gætu Vinstri græn fallið út af þingi í næstu kosningum.

Framsókn fengi 11,3 prósent fylgi og 8 þingmenn kjörna, Píratar fengju 7 þingmenn og Viðreisn 5 þingmenn kjörna.

Ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við þessa Gallupkönnun mætti líta á niðurstöðuna sem ákall um breytingar þar sem svonefnt „Reykjavíkurmódel“ yrði niðurstaðan, þ.e. stjórn sömu flokka og mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur: Samfylking, Framsókn, Viðreisn og Píratar með 37 þingmenn á bak við sig. Samstarf þessara flokka gengur vel í Reykjavík og ætti að sama skapi að geta gengið vel í ríkisstjórn.

Við blasir að Kristrún Frostadóttir yrði forsætisráðherra.

- Ólafur Arnarson.