Samfylkingin missir Krataarminn og heldur lengra út á vinstri kantinn

Áform um víðtækar hreinsanir á framboðslistum Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru að heppnast að mestu. Ætlunin var að losna við alla miðju og hægri Samfylkingarmenn úr forystusætum og tryggja vinstri arminum þau öll. Svo virðist sem flokkurinn telji vænlega að staðsetja sig vinstra megin við Vinstri græna en þannig hefur hann ekki unnið áður. Ýmsir telja að með þessu sé Logi Einarsson og nánustu ráðgjafar hans að gera meiriháttar pólitísk mistök. Fróðlegt verður að sjá þróun á fylgi flokksins í skoðanakönnunum næstu mánuði og auðvitað í sjálfum kosningunum eftir átta mánuði. Margt getur gerst á svo löngum tíma.

Aðförin að Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem var efsti maður á öðrum lista flokksins í Reykjavík, heppnaðist fullkomlega. Mikilli rógsherferð var beint gegn honum í tengslum við þá  skoðanakönnun sem fram fór með þeim árangri að hann var felldur með afgerandi hætti. Mikil ólga er innan Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna vinnubragða flokksforystunnar og yngra fólks í flokknum sem beinlínis „tók Ágúst af lífi“ eins og það er orðað. Birgir Dýrfjörð, formaður Rósarinnar, sem er félag fyrrum Alþýðuflokksmanna, sagði sig úr kjörnefndinni og kvaddi með hurðaskellum og hávaða. Þess er beðið að hann tjái sig nánar um gang mála við fjölmiðla. Margir hafa orðið til að fordæma vinnubrögðin gagnvart Ágústi Ólafi og víst er að stórir hópar innan flokksins eru reiðir. Samfylkingin gæti tapað fylgi vegna þessa. Um örlagarík mistök gæti verið að ræða sem aðrir miðjuflokkar munu þá njóta góðs af.

Dagskipunin var einnig að fella Helgu Völu Helgadóttur úr efsta sæti lista flokksins í hinu Reykjavíkurkjördæminu en það tókst ekki. Helga Vala kom vel út úr þessari skoðanakönnun - enda er hún mjög vinstrisinnuð og fellur því vel að þessari nýju stefnu sem gengur út á að færa flokkinn alveg út á vinstri kant íslenskra stjórnmála með kröfum um stórfelldar skattahækkanir, fjölgun opinberra starfsmanna og enn frekari skuldasöfnun hins opinbera. Af mörgum er það talin vera fullkomlega óábyrg stefna.

Í Suðvesturkjördæmi virðist standa til að ýta rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni úr efsta sæti til að koma þar fyrir fyrrum þingmanni Vinstri grænna, Rósu Brynjólfsdóttur, sem áður leiddi lista Vinstri grænna í kjördæminu og var á sínum tíma aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar þegar hann gegndi ráðherraembætti í vinstri stjórninni alræmdu árin 2009 til 2013. Guðmundur Andri er dáður rithöfundur og talinn vera öfgalaus miðjumaður. Það virðist að sjálfsögðu ekki hafa dugað í vinstri uppstokkun flokksforystu Samfylkingarinnar. Ekki er vitað hvað Guðmundur Andri gerir í framhaldi af þessu. Mun hann sætta sig við sæti neðar á listanum eða segir hann skilið við Samfylkinguna?

Fyrir liggur að Logi Einarsson muni leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi og Oddný Harðardóttir mun væntanlega einnig leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Fréttir hafa ekki borist af forystumálum flokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem Guðjón Brjánsson á Akranesi var efsti maður listans síðast.

Með þessum breytingum virðist Logi Einarsson ætla að veðja alfarið á að hann komi saman vinstri stjórn eftir kosningar og þá með Vinstri grænum, Pírötum, Flokki fólksins og annað hvort Sósíalistaflokki Gunnars Smára eða þá Framsókn sem hefur oft tekið þátt í vinstri stjórnum þegar það hefur staðið til boða.

Línur í íslenskum stjórnmálum eru að skerpast með vinstri vegferð Samfylkingarinnar.