Sálarkreppa gamals sjálfstæðismanns

Ekki ber á öðru en að taugatitringur meðal sjálfstæðismanna vegna komandi borgarstjórnarkosninga sé kominn á alvarlegt stig. Í Morgunblaðinu í gær, 15. nóvember, birtist grein eftir Sverri Ólafsson viðskiptafræðing sem bersýnilega er eldri sjálfstæðismaður og skelfingu lostinn yfir stöðu flokksins í Reykjavík. Samkvæmt Sverri mynda „furðuflokkar“ meirihlutann í Reykjavík.

Einn þessara „furðuflokka“ heitir Vinstri græn sem sjálfstæðismönnum þykir fullboðlegur til að leiða ríkisstjórnir þegar flokkur Sverris myndar vinstri stjórnir undir forsæti formanns Vinstri grænna!

Sverrir missir sig yfir vonsku heimsins, einkum í borginni. Fúkyrðaflaumurinn er slíkur að langt er síðan önnur eins samsuða hefur verið birt á síðum Morgunblaðsins jafnvel þótt tínd séu til Reykjavíkurbréf á vondum degi höfundar. Sérstaklega virðist honum í nöp við Samfylkinguna sem hann segir „[byggja] tilveru sína á persónulegu níði, ærumeiðingum, óraunhæfum hugmyndum og úreltum hugsjónum“ og tekur svo til við að fjalla sérstaklega um útlit og „tannheilsu“ Dags B. Eggertssonar.

Sverrir fárast yfir vönduðu upplýsingariti um metnaðarfulla úthlutun byggingarlóða og tímabæra þéttingu byggðar í Reykjavík. Kallar hann verkið „áróðursrit“. Sjálfstæðismaðurinn aldni man án efa þá gömlu góðu tíma þegar flokkur hans var og hét í borginni þótt langt sé um liðið. Þá var gefið út rándýrt litprentað upplýsingarit sem nefnt var BLÁA BÓKIN. Þar gerði flokkur hans ítarlega grein fyrir afrekum sínum eins og GRÆNU BYLTINGU Birgis Ísleifs og öðrum verkum meirihlutans. Þar hefur væntanlega verið um að ræða vandað og hlutlægt upplýsingagagn, en ekki „áróðursrit“, að mati Sverris.

Það virðist trufla þennan eldri sjálfstæðismann mikið að farsæll borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur Eggertsson, skuli stjórna borginni með bros á vör. Sverrir lýsir þessu sem „endajaxlabrosi“ og telur málflutning sinn eflaust víðs fjarri „persónulegu níði og ærumeiðingum“ sem hann sakar flokk borgarstjóra um..

Víst er langt um liðið frá því að sjálfstæðismenn gátu brosað vegna stöðu sinnar í Reykjavík. Verði málflutningur flokksins áfram eins og hjá félaga Sverri í umræddri grein, þurfa flokksmenn að bíða í ár og áratugi eftir tilefni til að brosa – út í annað. Að ekki sé talað um langþráð „endajaxlabros“.

Fýlusvipur verður áfram hlutskipti tapsárra sjálfstæðismanna í borginni um ókomin ár.

- Ólafur Arnarson