Sakar velferðarsvið borgarinnar um mannrán

Maður sem hafði betur gegn Reykjavíkurborg í kærumáli hjá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagði í kæru sinni að sambýliskona hans til 24 ára hefði verið blekkt til að skrifa undir beiðni um vistun á hjúkrunarheimili þar sem hún var síðan lögð inn. Hún hafi einfaldlega verið fórnarlamb mannráns. Segir í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að konan hafi verið sjúklingur og fengið heimahjúkrun á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en hafi að lokum verið lögð inn á hjúkrunarheimilið Skjól þar sem hún dvaldi þegar hún lést. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Reykjavíkurborg hefur verið gert að afhenda manninum um hina látnu sambýliskonu. Borgin vildi ekki afhenda gögnin því að þau væru vinnugögn og vörðuðu einkahagsmuni hinnar látnu konu. Því hafnar úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

„Er fyrst og fremst um að ræða upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar við kæranda og sambýliskonu hans og samskipti kæranda sjálfs við starfsmenn Reykjavíkurborgar vegna þess,“ segir nefndin.

Nánar um málsatvik segir að manninum segist þannig frá að í janúar 2020 hafi starfsmaður frá heimahjúkrun komið á heimili þeirra og látið konu hans skrifa nafn sitt á bréf án þess að hún fengi að lesa efni bréfsins. Starfsmaðurinn hafi farið með bréfið í burtu án heimildar hans eða sambýliskonu hans. Viku síðar hafi þeim borist bréf frá Reykjavíkurborg þar sem henni hafi verið þakkað fyrir umsókn sína um varanlega stofnun fyrir sig sjálfa.

„Kærandi segir þetta „skjalafals“ og að hún hafi aldrei sótt um vist á neinu hjúkrunarheimili,“ segir í umfjölluninni. Manninn gruni að hjúkrunarfræðingurinn hafi notað þetta falsaða bréf til þess að leggja sambýliskonu hans inn á Skjól í nóvember 2020. Hann segðist hafa rætt við yfirmanneskju heimahjúkrunar sem hafi beðist afsökunar og sagt að ekki hefði verið rétt staðið að því að fá undirskrift konu hans.

„Í kæru gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við meðferð sambýliskonu sinnar og að hann hafi ekki fengið neinu ráðið um það að hún hafi verið lögð inn á hjúkrunarheimili,“ segir úrskurðarnefndin.

„Hann telur aðgerðaleysi lækna þar hafa kostað hana lífið og gagnrýnir að hafa ekki fengið upplýsingar um meðferð hennar,“ segir áfram um málið í umfjöllun nefndarinnar.

„Það sem hún hafi lent í hafi verið mannrán, það hafi verið framinn glæpur og mannréttindabrot. Þeir sem brjóti mannréttindi á öðrum eigi ekki að fela sig á bak við persónuverndarlög,“ segir ennfremur um sjónarmið mannsins sem vildi fá öll gögn á borðið.

„Kærandi kveðst eiga rétt á að vita allan sannleikann frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar um það hverjir báru ábyrgð á afdrifum hennar. Það eigi ekki að hlífa fólki sem noti aðstöðu sína til að eyðileggja líf annarra eins og gert hafi verið við hann og sambýliskonu hans.“

Í málsrökum Reykjavíkurborgar fyrir úrskurðarnefndinni er ekki vikið að ásökunum mannsins um skjalfals, mannrán, aðgerðaleysi lækna eða að öðru slíku heldur aðeins rakið hvers vegna manninum hefði verið synjað um að fá gögnin sem hann óskaði eftir og vörðuðu sambýliskonu hans. Sem fyrr segir hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagt fyrir borgina að afhenda manninum gögnin sem hann bað um.