Sakar Ólaf um að hafa trúnaðarupplýsingar: „Mál að linni“

Erna Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni, hélt áfram ritdeilum sínum við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í grein á Vísi í dag. Þar sakar hún hann um að hafa vitað fyrirfram um innihald fríverslunarsamning Íslands og Bretlands, vísar hún þar í tilkynningu FA.

„Af tilkynningunni mátti ráða að FA hafi vitað nokkuð nákvæmlega hvað samninganefnd Bretlands bauð í samningaviðræðunum. Vekur þetta furðu enda eru samningaviðræður um fríverslun milli tveggja ríkja venjulega bundnar trúnaði,“ segir Erna. „Þetta verður að kanna sérstaklega enda verður að telja af þessu ljóst að ekki sitja aðrir hagsmunaðilar við sama borð og FA.“

Þá fer hún hörðum orðum um FA, segir að það tali alls ekki fyrir almannahagsmuni heldur aðeins hagsmuni félagsmanna sinna. „Málflutningur FA um óheftan innflutning erlendra vara er í andstöðu við opinbera stefnu stjórnvalda í mörgum skilningi. Í málflutningi FA er t.d. ekkert tillit tekið til matvælaöryggis, þjóðaröryggis, heilbrigðisreglna, landbúnaðar­stefnu, byggðastefnu o.m.fl.,“ segir Erna. „Í huga þeirrar sem þetta ritar er mál að linni. Almannahagsmunir í víðu samhengi verða að ráða í málefnum landbúnaðar og mótun stefnu í milliríkjaviðskiptum Íslands.“