Sakar Bjarna Ben um „vitsmunalega leti“

20. febrúar 2021
18:03
Fréttir & pistlar

Sif Sigmarsdóttir fer ekki mjúkum höndum um Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, og rökfærslur hans í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Umfjöllunarefnið var sala Íslandsbanka og sannfæringarkraftur fjármálaráðherra um réttmæti þeirrar sölu.

„Fáum dylst ákafi Bjarna þegar kemur að einkavæðingunni. Ekki eru þó allir jafnsannfærðir um nauðsyn hennar. Þykir mörgum asinn vera heldur mikill, vinnubrögðum ábótavant og hvatirnar óljósar,“ skrifar Sif.

„Það er mjög sérkennilegt að einkavæða banka rétt fyrir kosningar, þegar allt hagkerfið er í 100 ára djúpri kreppu og óvissa um eignasöfn,“ er haft eftir Ágústi Ólafi Ágústsyni, nefndarmanni í fjárlaganefnd í pistlinum.

Sif segir fjármálaráðherra hafa afskrifað allar aðfinnslur sem hugmyndafræðilegan ágreining. „Efasemdafólk væri „einfaldlega þeirrar skoðunar að ríkið hafi hlutverki að gegna sem leiðandi afl og megin eigandi fjármálakerfisins,“ ítrekar Sif.

Sér ekki bjálkann í eigin auga

Sif bendir á að margur sjái flísina í auga annars en ekki bjálkann í eigin auga. „Í sömu andrá og Bjarni sakaði þá sem voru honum ósammála um hugmyndafræðilega rörsýni útskýrði hann fyrir þeim „bestu rökin fyrir því að selja bankann“. Þau voru orðrétt: „Ríkið á ekki að standa í bankarekstri.“

Rök fjármálaráðherra féllu ekki vel í kramið hjá Sif. „Að láta eins og að til sé eitt sjálfkrafa svar við því hvort ríkið eigi að selja Íslandsbanka eða ekki er vitsmunaleg leti.“

Sig segir það vera vafamál hvort selja eigi banka eða ekki. „Eitt er þó engum vafa undirorpið. Aðeins 23 prósent treysta Bjarna Benediktssyni til að leiða sölu Íslandsbanka. 63 prósent treysta honum illa.“