Sagðist hafa borgað 20 þúsund krónur fyrir á­kaf­lega illa falsað öku­skír­teini

16. september 2020
15:08
Fréttir & pistlar

Héraðs­dómur Reykja­ness hefur dæmt karl­mann í 45 daga ó­skil­orðs­bundið fangelsi fyrir skjala­fals og um­ferðar­laga­brot. For­saga málsins er sú að maðurinn, sem er af er­lendu bergi brotinn, var stöðvaður á Njarðar­braut í Reykja­nes­bæ þann 22. nóvember 2018.

Þegar lög­reglu­menn báðu manninn að fram­vísa öku­skír­teini fram­vísaði hann skil­ríki sem bar yfir­skriftina „Syrian Arab Repu­blic International Dri­ving Licence“ og nafn mannsins.

Í dómi segir:

„Við skoðun á skír­teininu vaknaði grunur um að öku­skír­teinið væri falsað. Bæði voru þar engir öryggis­þættir til staðar og ýmsar staf­setningar­villur voru í prentuninni. Þá hafði orðið „Syria“ verið hand­ritað þar sem rita átti nafn öku­manns. Á­kærði neitaði því að öku­skír­teinið væri falsað, en lög­reglu­menn á­kváðu að hald­leggja það í þágu frekari rann­sóknar.“

Niður­staða rann­sóknar málsins var að skír­teinið væri svo­kallað „sýndar­skjal“, ó­vandað af allri gerð og án allra öryggis­at­riða. Það ætti sér enga fyrir­mynd í ó­sviknu al­þjóð­legu öku­skír­teini frá Sýr­landi, auk þess sem villur og mis­ræmi væru í texta, bæði á fram­hlið og bak­hlið þess. „Tekið er loks fram að um mjög ó­dýra og grófa fölsun sé að ræða.“

Maðurinn sagði í skýrslu­töku hjá lög­reglu í janúar 2019 að hann hefði ekki vitað að skír­teinið væri falsað. Hann hefði týnt upp­ran­legu öku­skír­teini sínu í Líbýu, en síðan náð sam­bandi við ein­hvern sem sendi honum nýtt öku­skír­teni þremur mánuðum fyrr. Það hafi verið í Tyrk­landi og hafi hann borgað 20.000 krónur fyrir það. Maðurinn vildi ekki tjá sig um það hver hefði látið hann fá skír­teinið, að­eins að það hefði verið maður sem ætti heima á Ís­landi.

Dómari mat fram­burð mannsins ó­trú­verðugan, enda skoðaði hann ljós­rit af öku­skír­teininu. Þótti hæfi­leg refsing vera 45 daga fangelsi og þá var manninum gert að greiða laun verjanda síns, 275 þúsund krónur.