Safarík lambaprime, kjúklingabringur með spínatpestó og syndsamlega ljúffeng grilluð epli með kókos súkkulaðisósu

Á dögunum í þættinum Fasteignir og heimili heimsótti Sjöfn Þórðar, Hrefnu Rósu Sætran matreiðslumeistara, rithöfund matreiðslubóka og sjónvarpskokk með meiru út á pallinn á heimili hennar í Skerjafirðinum. Í tilefni þess að grillsumarið mikla er hafði og fátt annað skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu og vinum á góðvirðis dögum fékk Sjöfn, Hrefnu, til þess að gefa lesendum hugmyndir af grillmat. Hrefna fór á kostum á grillinu eins og henni einni er lagið og töfraði fram einfalda og frumlega rétti sem enginn stenst.

„Það er svo gaman að grilla allskonar og reyna vera sem mest úti en ekki inni í eldhúsi þegar sólin skín og veðrið er gott,“ segir Hrefna Rósa og leggur jafnframt áherslu á það að grillmaturinn þurfi ekki að vera flókinn í undirbúningi né matreiðslu.

Hrefna grillaði og bauð uppá lambaprime í balsamiklegi, kjúklingabringur í timjan með spínat pestói og rauðlauk, grillað paprikusalat með parmesan osti, litlar sætar kartöflur með rósmarín, bakaðan hvítlauk með timjan og í eftirrétt grillað grænt epli með kókos súkkulaðisósu.

Sjöfn fékk að smakka og njóta matarupplifunar sem bragðaðist ómótstæðilega vel og brögðin komu skemmtilega á óvart. „Eftirrétturinn setti punktinn yfir i-ið, þetta grillaða græna epli í þessari mögnuðu kókos súkkulaðisósu er syndsamlega ljúffengt, þetta getur enginn staðist,“ sagði Sjöfn eftir að hafa notið sælkera grillmatarins hjá Hrefnu. „Ég elska að grilla ávexti og þetta súra græna epli með kókos, karamellu og sjávarsalti er fullkomin samsetning,“ sagði Hrefna. Sjöfn fékk Hrefnu Rósu til að gefa okkur uppskriftirnar af þessum sælkeraréttum sem vert er að prófa og njóta í sumar.

lauur.jpg

Grilluð kjúklingabringa með spínat pestó

4 stk kjúklingabringa

olía

nokkrar timjan greinar

salt

Zip lock poki

Aðferð: Setjið kjúklingabringurnar í poka og berjið þær út. Setjið þær í poka með olíu, timjan og salti. Þetta má gera vel áður og geyma þær í pokanum. Grillið svo kjúklingabringurnar í svona 4-5 mínútur á hvorri hlið. Takið þær af grillinu og setjið spínat pestó ofan á bringurnar. Setjið svo þunnar sneiðar af rauðlauk yfir í lokin.

Spínat pestó

100 g spínat

80 g furuhnetur

2 msk. sítrónusafi

2 tsk. rifinn sítrónubörkur

125 g rifinn parmesan ostur

125 ml olivuolía

salt og pipar

Aðferð: Setjið allt pestó hráefnið í blandara og maukið vel saman. Kryddið með salti og pipar.

lamb.jpg

Lambaprime í balsamiklegi

4 stk lambaprime (eða um 180 g á mann)

110 ml agave sýróp

50 ml balsamikedik

50 g grófkorna sinnep

1 msk chili flögur

2 stk hvítlauksrif, rifin

Aðferð: Blandið öllu saman í fati og marinerið lambið upp úr leginum í amk 20 mínútur (má vera í sólahring +) Grillið lambið í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið aðeins til hliðar og grillið svo aftur í 3-4 á hvorri hlið. Lambaprime má elda meira en minna svo ég mæli með að ná kjarnhitanum upp í 58°c.

brauð.jpg

Bökuð lítil sæt kartafla

4 litlar sætar kartöflur

4 rósmarín greinar

olía

salt

álpappír

Aðferð: Skerið nokkrar rákir í sætu kartöflurnar, penslið þær með olíu og kryddið með salti. Vefjið hverri kartöflu inn í álpappír með rósmarín grein og bakið við óbeinan eld í klukkutíma eða þar til kartaflan er orðin bökuð í gegn.

hvítlaukur.jpg

Bakaðir hvítlaukar

2 stk. heilir hvítlaukar

nokkrar timjan greinar

olía

salt

álpappír

Aðferð: Pakkið hvítlaukunum inn í álpappír ásamt timjan og olíu og kryddið með smá salti. Bakið hvítlaukinn í rúman klukkutíma á óbeinum eld þar til hvítlaukurinn er orðinn mauk eldaður.

paprika.jpg

Grillað papriku salat með parmesan osti

1 rauð paprika

1 græn paprika

1 appelsínugul paprika

olía

salt og pipar

Aðferð: Skerið paprikurnar í frekar þykka hringi. Penslið með olíu, kryddið með salt og pipar og grillið sneiðarnar þangað til að fallegar grillrendur myndast. Setjið paprikuna á disk og raspið parmesan ost yfir.

kókus.jpg

Grillað og bakað grænt epli með kókos súkkulaðisósu og ristuðum kókos

2 stk. græn epli

4 msk. hrásykur

4 msk. ristaðar kókosflögur

Aðferð: Skerið eplin í tvennt og veltið upp úr hrásykrinum. Grillið sykurhliðina á heitu grilli þar til grillrendur myndast. Snúið þá eplinu við og setjið það á óbeinan eld og leyfið því að bakast alveg í 20-30 mínútur. Takið eplið af grillinu, setjið vel af súkkulaðisósu yfir og svo ristuðum kókos. Það skemmir ekki fyrir að bera fram ís með þessum rétt.

Kókos súkkulaðisósa

120 ml kókosmjólk

120 ml rjómi

200 g súkklaði að eigin vali (ég notaði saltkaramellu súkkulaði frá Nóa Siríus)

Aðferð: Setjið í pott og bræðið saman.