RÚV sektað um 1,2 milljónir vegna Exit: „Einstaklega gróft efni“

1. júní 2020
16:09
Fréttir & pistlar

Fjölmiðlanefnd hefur sektað RÚV um 1,2 milljónir króna fyrir að gera norsku þáttaröðina Exit aðgengilega börnum án möguleika á aðgangsstýringu.

Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að með þessu hafi RÚV brotið ákvæði fjölmiðlalaga um vernd barna gegn skaðlegu hljóð- og myndmiðlunarefni.

Byggja á sönnum sögum úr norskum fjármálaheimi

Þættirnir sem um ræðir þykja heldir grófir og innihalda senur sem sýna ofbeldi, eiturlyfjaneyslu og kynlíf í norskum samtíma.

Fjölmiðlanefnd hóf athugun sína í kjölfar kvörtunar frá Magnúsi Ragnarssyni, framkvæmdastjóra afþreyingarmiðla og sölu hjá Símanum.

Í kvörtuninni kemur fram að um „einstaklega gróft efni væri að ræða sem væri bannað börnum yngri en 16 ára,“ segir í ákvörðun nefndarinnar.

Engar aðgangsstýringar væru til staðar í spilara RÚV til verndar börnum og ungmennum og því „[lægi efnið] einfaldlega þarna með Krakkafréttum og Stundinni okkar“.

Um að ræða gróft brot

Holskefla kvartanna bárust norska útvarpsráðinu vegna þáttanna sem notið hafa mikilla vinsælda á Norðurlöndunum.

„Klám, kynfæri, óvandaður munnsöfnuður og úrkynjuð hegðun. Það eru ákaflega mikil vonbrigði að Norska ríkisjónvarpið geti ekki haldið sig innan marka siðsamlegrar dagskrárgerðar á besta útsendingartíma,“ sagði einn óánægður Norðmaður.

„Ég skammast mín fyrir NRK sem er nú orðið leiðandi afl í andlegri hnignun þjóðarinnar,“ sagði annar um þættina.

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að um gróft brot væri að ræða af hálfu RÚV sem var gert að fjarlægja þættina af vef sínum.

Nánar má lesa um þessa afgerandi ákvörðun nefndarinnar á vef Fréttablaðsins.