RÚV heldur sínu striki með milljörðum af skattfé en frjálsir miðlar tapa

4. ágúst 2020
13:22
Fréttir & pistlar

Á ári hverju fær RÚV um það bil 5 milljarða króna frá ríkinu af skattpeningum almennings. Auk þess fer RÚV mikinn á auglýsingamarkaði og nær til sín tekjum sem nema um 2,5 milljörðum sem er um fjórðungur eða fimmtungur af heildarmarkaði auglýsinga hér á landi. Umræða um að þetta ástand sé óboðlegt hefur staðið samfellt í áratugi án þess að nokkuð markvert gerist. Sumir stjórnmálaflokkar hafa markað sér þá stefnu að fyrirferð RÚV á auglýsingamarkaði verði minnkum verulega. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Í áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn samþykkt á öllum landsfundum sínum ályktanir um að RÚV verði dregið út af auglýsingamarkaði að verulegu leyti. Sumir aðrir flokkar hafa verið á svipuðum nótum en allt kemur fyrir ekki. Stofnunin heldur sínu striki og svo virðist sem engir stjórnmálamenn fái ráðið við þetta ríki í ríkinu.

Stjórnmálamenn og aðrir halda því fram að þörf sé fyrir frjálsa fjölmiðlun í landinu og að tryggja verði eðlilega samkeppni milli fjölmiðla. Erfitt er að mæla á móti því. En þá þarf samkeppnin að vera sanngjörn. Ekki gengur að ríkisfjölmiðill hafi stöðugt forskot á aðra og geti í skjóli skattpeninga almennings sópað til sín tekjum á auglýsingamarkaði sem einkareknum fjölmiðlum veitti ekki af - vilji menn á annað borð hafa fjölbreytta flóru fjölmiðla. Stundum hvarflar að manni að ráðamenn vilji hafa þetta eins og hefur tíðkast í ráðstjórnarríkjum, þ.e. að öllum sé rutt úr vegi nema opinberum fjölmiðlum.

Á meðan RÚV gengur að milljörðum vísum af skattfé almennings á hverju ári og fer svo mikinn á auglýsingamarkaði, tapa flestir einkareknir fjölmiðlar fé. Slíkt fyrirkomulag gengur auðvitað ekki til lengdar því eigendur frjálsra fjölmiðla vilja ekki fjármagna viðvarandi taprekstur.

Um liðna helgi skýrði Morgunblaðið frá afkomu Árvakurs sem gefur blaðið út og rekur tengda starfsemi. Tap nam tæpum 300 milljónum króna en hafði verið rúmar 400 milljónir árið á undan. Kjarninn hefur ítrekað fjallað um fjármál og afkomu Árvakurs. Kjarninn skýrir frá því að tap Árvakurs hafi samtals numið 2,5 milljörðum króna frá því nýjir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009. Í umfjöllun Kjarnans þann 26. september 2015 um fjárhag Árvakurs kom fram að fyrirtækið hafi fengið niðurfelldar skuldir árið 2009 þegar nýjir hluthafar komu að félaginu. Var það um að ræða niðurfellingu skulda að fjárhæð 3,5 milljarðar króna á þáverandi verðlagi. Árið 2011 var gengið enn lengra í niðurfellingu skulda og einum milljarði króna bætt við. Viðskiptabanki félagsins felldi því niður fyrir útgefanda Morgunblaðsins samtals 4,5 milljarða króna á verðlagi 2009 og 2011. Á núverandi verðlagi jafngildir það um átta milljörðum króna. Þessu til viðbótar kemur samansafnað tap Árvakurs upp á 2,5 milljarð króna. Hér er því ekki um neinar smáfjárhæðir að ræða.

Fram hefur komið að aðrir fjölmiðlar, smáir og stærri, hafa yfirleitt verið reknir með tapi ár eftir ár. En þær fjárhæðir sem tengjast Morgunblaðinu eru þó í sérflokki.

Það leikur sér enginn að því að reka fyrirtæki með tapi. En þegar samkeppnisstaðan er ósanngjörn þá er hægt að benda á leiðir til úrbóta og gera sér vonir um betri tíð. Sjálfstæðir fjölmiðlar hljóta að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir efni áralöng loforð um minnkaða þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði. Ekki verður lengur undan því vikist að efna þau loforð.

Á þessum markaði er vitlaust gefið.