RÚV biður Þórólf afsökunar á klúðri við myndbirtingu: „Myndin átti augljóslega ekki að fylgja með þessari frétt“

26. mars 2020
11:39
Fréttir & pistlar

Ríkisútvarpið segir álag á vefþjóna orðið til þess að mynd af Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni birtist með færslu um fjöldamorðingja í Nýja-Sjálandi á Facebook. Að sögn RÚV á vandinn rætur sínar í tæknilegum samskiptum Facebook og ruv.is þar sem Facebook setur rangar myndir með færslum af vefnum.

Facebook tók mynd af handahófi af Þórólfi og setti við fréttina um fjöldamorðingjann.
Skjáskot/Facebook

„Myndin átti augljóslega ekki að fylgja með þessari frétt á Facebook og biðjum við Þórólf afsökunar á þessu. Rétt mynd fylgdi með fréttinni á RÚV.is,“ segir í Facebook færslu Ríkisútvarpsins en færslunni með myndinni hefur nú verið eytt af Facebook.

Mikið álag hefur verið á vefþjóna fréttamiðla síðastliðnar vikur vegna COVID-19 faraldursins en að sögn RÚV er verið að greina vandamálið. „Fréttastofa RÚV biður notendur velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta getur valdið.“