Rúm­lega 55 þúsund inn­flytj­endur á Ís­landi – Mikil fjölgun frá árinu 2012

Þann 1. janúar síðast­liðinn voru 55.354 inn­flytj­endur á Ís­landi, eða 15,2% mann­fjöldans. Þetta kemur fram í tölum sem Hag­stofa Ís­lands birti í morgun.

Um er að ræða fjölgun frá því í fyrra þegar inn­flytj­endur voru 14,1% lands­manna, eða 50.271.

„Fjölgun inn­flytj­enda heldur því á­fram en frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr því að vera 8,0% mann­fjöldans upp í 15,2%. Inn­flytj­endur af annarri kyn­slóð fjölgaði einnig á milli ára, þeir voru 5.264 í fyrra en eru nú 5.684. Saman­lagt er fyrsta og önnur kyn­slóð inn­flytj­enda 16,8% af mann­fjöldanum og hefur það hlut­fall aldrei verið hærra. Ein­stak­lingum með er­lendan bak­grunn, öðrum en inn­flytj­endum, fjölgaði einnig lítil­lega á milli ára og eru nú 7,0% mann­fjöldans,“ segir í frétt sem Hag­stofan birti á vef sínum.

Þar segir að inn­flytjandi sé sá ein­stak­lingur sem er fæddur er­lendis og á for­eldra, báða afa og ömmur, sem öll eru fædd er­lendis. Inn­flytj­endur af annarri kyn­slóð eru ein­staklingar sem fæddir eru á Ís­landi og eiga for­eldra sem báðir eru inn­flytj­endur. Fólk er talið hafa er­lendan bak­grunn ef annað for­eldrið er er­lent. Ein­stak­lingur sem fæddist er­lendis en á for­eldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa er­lendan bak­grunn.

Eins og síðustu ár eru Pól­verjar lang­fjöl­mennasti hópur inn­flytj­enda hér á landi. Hinn 1. janúar síðast­liðinn voru 20.477 ein­staklingar frá Pól­landi, eða 37% allra inn­flytj­enda. Þar á eftir koma ein­staklingar frá Litháen (5,9%) og Filipps­eyjum (3,8%). Pólskir karlar eru 39,3% allra karl­kyns inn­flytj­enda, eða 12.121 af 30.866. Litháískir karlar eru næst fjöl­mennastir (6,7%) og síðan karlar með upp­runa frá Rúmeníu (4,4%). Pólskar konur eru 34,1% kven­kyns inn­flytj­enda, næst á eftir þeim eru konur frá Filipps­eyjum (5,8%) og þá konur frá Litháen (5%).

Loks kemur fram að á árinu 2019 hafi 468 ein­staklingar fengið al­þjóð­lega vernd. Aldrei hafa áður jafn margir fengið slíka vernd á sama árinu, en árið 2018 voru þeir 247. Flestir (155) höfðu venesúelskan ríkis­borgara­rétt en þar á eftir komu flótta­menn með sýr­lenskt ríkis­fang (71). Nýjum um­sækj­endum á árinu fjölgaði lítil­lega frá árinu 2018. Þeir voru 813 árið 2019 saman­borið við 731 árið 2018. Alls voru gefin út 2.105 ný dvalar­leyfi til ein­stak­linga utan EES svæðisins á árinu 2019 saman­borið við 1.952 árið 2018.