Rósa Björk segir Bjarna hafa sýnt hroka og smættingu

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, er ósátt við viðtal RÚV við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í gær.

Bjarni var í viðtali um þá ákvörðun að skipa Jón Gunnarsson í embætti dómsmálaráðherra. Skipun hans hefur verið gagnrýnd harðlega og ekki síður val hans á aðstoðarmönnum, en  fyrir valinu urðu þeir Brynjar Níelsson og Hreinn Loftsson.

Bjarni gerði lítið úr þeim athugasemdum sem komið hafa fram og sagði raunar enga málefnalega gagnrýni liggja að baki.

„Ég held að þú sért að tala hérna fyrir hönd lítils minnihlutahóps. Og það er sjálfsagt fyrir hann að hafa sínar skoðanir. Ég er bara algerlega og fullkomlega ósammála þessum sjónarmiðum,“ sagði Bjarni meðal annars.

Rósa Björk sagði á Twitter í gærkvöldi að illa væri komið fyrir þeim stjórnmálamönnum sem bregðast við gagnrýni þolenda kynferðisofbeldis og baráttufólks gegn kynbundnu ofbeldi með hroka og smættingu.

„Munum að formaður XD greiddi atkvæði gegn auknum réttindum kvenna og stúlkna til þungunarrofs. Það sama gerðu núverandi dómsmálaráðherra og aðstoðarmaður hans. Að ógleymdum óteljandi kvenfjandsamlegum ummælum aðstoðarmannsins sem sum hafa hlegið að eins og ekkert sé og árið sé 1974.“