Rómantísk ferð til Ís­lands breyttist í mar­tröð

27. október 2020
14:51
Fréttir & pistlar

Flug­dólgur hefur verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir að láta öllum illum látum um borð í flug­vél Ea­syJet sem var á leið til Ís­lands þann 24. septem­ber síðast­liðinn.

Maðurinn, John Evans, var mjög drukkinn þegar hann fór um borð í vélina á flug­vellinum í Manchester á Eng­landi á­samt kærustu sinni.

Grímu­skylda var um borð vegna kórónu­veirufar­aldursins og neitaði Evans að bera grímu þrátt fyrir í­trekuð til­mæli starfs­fólks þess efnis. Reifst hann við aðra far­þega og var mjög dóna­legur við starfs­fólk um borð í vélinni. Þá lét hann öllum illum látum þegar lög­regla var kölluð á staðinn og hótaði að slá lög­reglu­menn í rot ef þeir létu hann ekki vera.

Málið var leitt til lykta fyrir breskum dóm­stólum í vikunni en þar kom fram að Evans hafi verið mjög ölvaður, ó­stöðugur á fótum og þvoglu­mæltur. Var hann dreginn frá borði áður en vélin hélt sína leið til Kefla­víkur.

Úr varð að hann var dæmdur til að greiða 230 pund í sekt og 119 pund í sakar­kostnað. Sam­tals gera þetta rúmar 63 þúsund krónur.

Lög­maður hans, Nikki Cochran, sagði fyrir dómi að skjól­stæðingur hennar hafi misst stjórn á sér um­ræddan dag. Hann viður­kenni að hafa verið drukkinn og sýnt af sér ó­sæmi­lega hegðun. Þá kom fram í máli Nikki að hann sé ekki lengur með kærustu sinni eftir at­vikið.