Rögnvaldur um Víði: „Ekki góður dagur í gær“

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, er reglulega í sambandi Víði Reynisson yfirlögregluþjón en Víðir er í einangrun eftir að hafa smitast af COVID-19 fyrr í vikunni.

Rögnvaldur er nú staðgengill Víðis á meðan hann er í einangrun en Víðir fór að finna fyrir einkennum skömmu eftir að hann greindist. Að sögn Rögnvalds var Víðir mjög veikur í gær. „Það var ekki góður dagur í gær,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Vísi um málið í dag.

Víði líði þó betur í dag en í gær. „Ég heyrði í honum í gærkvöldi og þá var hann aðeins farinn að hressast og svo aftur í morgun, þá leið honum mun betur en í gær,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Vísi.

Enn sem komið er virðist ekki hafa tekist að rekja hvaðan Víðir smitaðist en nánasta samstarfsfólk Víðis, þar á meðal Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, fór einnig í sýnatöku en reyndust sýni þeirra vera neikvæð.