Róbert um á­fallið 2014: Rankaði við sér ofan í holu – Fjögur ár að ná sér

Róbert Mars­hall, fjöl­miðla­maður og fyrr­verandi þing­maður, lenti í al­var­legu slysi árið 2014. Taldi Róbert að dagar hans væru hrein­lega taldir. Róbert er gestur Sölva Tryggva­sonar í nýjasta pod­cast­þætti Sölva.

Í þættinum segir hann meðal annars sögu af því þegar hann lenti í al­var­legu slysi á vél­sleða.

„Ég lenti í miklu á­falli 2014 þegar ég slasa mig á vél­sleða og fer inn á sjúkra­hús með 17 brotin bein og sköðuð líf­færi. Þegar ég rankaði við mér eftir slysið ofan í ein­hverri holu við Skjald­breið, þá gat ég ekki staðið upp. Sama hvað ég reyndi gat ég ekki reist mig við og ég vissi að ég væri með inn­vortis blæðingar og ég hugsaði með mér að senni­lega væri ég bara að drepast. Heilinn í manni og sjálfið hefur rosa­legan „Coping Mechanisma“ og ég fann það þarna. Það kemur ein­hver ein­beiting þar sem ég hugsa: „Ok, ég get ekki gengið, ég er lík­lega mjög skaðaður inni í mér. Vonandi kemst ég á sjúkra­hús í tæka tíð, en ef ekki, þá er þetta búið að vera gott líf og ég hef margt að þakka fyrir. Búinn að lifa margar manns­ævir á meðan ég hef verið hérna.“

En svo kemur þetta langa tíma­bil, þar sem þú ert í ó­vissu með hvað mun taka við og hvort maður nái sér og þetta er eigin­lega lang­dregið á­fall. Svo kemstu út úr því og þá þarftu að fara til baka og laga hausinn á þér varðandi at­burðinn. Maður þarf að geta talað um at­burðinn, farið í gegnum hann og átt von á því að þessi bók detti úr hillunni þegar þú átt síst von á því og þú þarft að geta tekið hana upp og horft á kaflann þar sem þetta er sárast, lesið hann, lokað bókinni og sett hana aftur upp í hillu. Ef maður gerir það ekki fara skrýtnir hlutir að gerast.”

Róbert lagði hart að sér í endur­hæfingunni og hljóp mara­þon árið eftir, en segist hafa verið 4 ár að jafna sig að fullu. Undan­farin ár er hann búinn að hlaupa nokkur mara­þon og löng utan­vega­hlaup og í einu þeirra, Jökuls­ár­hlaupinu, komst hann aftur í hann krappan:

„Ég kem í mark og er greini­lega orðinn upp­þornaður, þó að ég hafi verið að passa upp á að drekka vatn og taka gel alla leiðina, enda reyndur í þessu. Svo fæ ég mér kók og Snickers og eitt­hvað, en jafna mig bara ekki og mér var bara á­fram ó­glatt og ég var hvítur í framan og svo geri ég það sem maður á ekki að gera. Ég fer af­síðis. Það er þekkt við­bragð hjá fólki þegar það líður illa að reyna að koma sér út úr mann­mergð. Ég lagðist upp í bíl og hallaði sætinu, en svo kemur að bílnum Hjálmar bæklunar­læknir sem var búinn að vera í hópnum að æfa með mér og sér mig og dregur mig bara inn í sjúkra­bíl. Þar voru settar nálar í báðar hendurnar á mér og kreistir pokar og settur vökvi á kerfið þangað til mér átti að verða mál að pissa. En það líða alveg 3 lítrar þangað til að ég er kominn með lit í and­litið. Þetta var greini­lega svona rosa­legt vökva­tap og það var fullt af fólki að krampa í þessu hlaupi af því að hitinn var svo mikill.”

Róbert, sem starfar nú sem ráð­gjafi for­sætis­ráð­herra hefur sett sér það mark­mið að ná að fara á 100 hæstu tinda Ís­lands og segist búinn að fara á ríf­lega 40.

Róbert hefur sem fyrr segir víða komið við á löngum og mögnuðum ferli. Hann vann um ára­bil sem frétta­maður og þátta­stjórnandi, stofnaði svo Frétta­stöðina NFS á­samt fleirum, áður en hann fór síðar í stjórn­mál, þar sem hann sat á þingi. Í þættinum fara Róbert og Sölvi yfir alla þessa hluti og margt margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan: