Rísandi sjónvarpsstjarna sem elskar plötuhornið

Kolbrún María Másdóttir er tuttugu og eins árs gömul, fyrsta árs nemandi í málvísindum við Háskóla Íslands og hefur þegar fjárfest í sinni fyrstu íbúð ásamt kærasta sínum, Arnóri Björnssyni. Arnór er tuttugu og þriggja ára gamall nemandi í leikaranámi við Listaháskóla Íslands. Kolbrún María hefur meðal annars vakið verðskuldaða athygli fyrir útgeislun sína, fallega framkomu og frammistöðu á skjánum hjá RÚV en hún les Krakkafréttirnar tvisvar í viku.

Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Kolbrúnu Maríu heim í nýju fallegu íbúðina þeirra Arnórs sem staðsett í nýja hverfinu, Hlíðinni við Valsheimilið á Hlíðarenda. Það er stór áfangi þegar fjárfest er í fyrstu eigninni og mikil upplifun að sjá unga fólkið koma sér fyrir og rugla saman reitum. Þau hafa komið sér vel fyrir og á heimili þeirra er hlýleikinn og persónulegur stíll þeirra í forgrunni. Litirnir á veggjunum eru með rómantísku ívafi og fanga augað.

FB-Kolbrún-08.jpg

Okkur fannst íbúðin vel staðsett, það er stutt til allra átta, nálægt miðbænum en samt utan við hann, við erum svo miðsvæðis. Svo er auðvitað algjör lúxus að fá sér alveg glænýja íbúð og gera hana að okkar,“segir Kolbrún María þegar hún er spurð út í valið á staðsetningunni.

Þegar Kolbrún María er beðin að lýsa heimilisstílnum segir hún hann vera nokkuð blandaðan. „Við Arnór erum með svo ólíkan smekk, ég er með svona gamaldags smekk og er hrifin af gömlu hlutum eins úr Góða hirðinum og úr fjölskyldunni en Arnór er meira fyrir nýtískulegri hluti eins og stílhreinum skandinavískum stíl.“

Kolbrún María og Arnór eiga fallega hluti sem þau halda mikið upp á, bæði sem hafa tilfinningalegt gildi og þau hafa valið inn á nýja heimilið sitt. Þegar horft er yfir rýmið þá á hver hlutur og húsgagn sinn stað. „Við elskum plötuhornið, þar getur maður setið og valið vínyl plötu til að spila,“segir Kolbrún María og sýnir Sjöfn safnið sem þau hafa komið sér upp.

FB-220202-Kolbrún-05.jpg

Einstaklega skemmtileg og gefandi heimsókn Sjafnar á heimili Kolbrúnar María í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut.

Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endur­sýning er klukkan 21.00 í kvöld.