Risa maurar fluttir inn til landsins: geta stungið og valdið miklum sársauka

Umhverfisstofnun hefur heimilað innflutning á brasilískum risamaurum. Þetta eru stærstu maurar sem finnast í náttúrunni. Þorkell Hreiðarsson, deildarstjóri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum greindi frá þessu í Morgunútvarpinu á Rás 2. Maurarnir eru af tegundinni Dinoponera og fyrirfinnst þeir aðeins í regnskógum Suður-Ameríku. Búkur mauranna getur orðið allt að 3-4 sentimetra langur. Þorkell sagði:

„Þetta kemur úr ræktun í háskóla í Sao Paulo þar sem er verið að rannsaka þessa tegund. [...]þessir maurar eru hitabeltisdýr og ekki nokkur leið fyrir þá að lifa af í íslenskri náttúru.“

Ekki er komið á hreint hvenær maurarnir mæta í húsdýragarðinn en beðið er eftir að leyfið verði staðfest af brasilískum yfirvöldum, en líkur eru á að það gerist á næstu vikum. Aðspurður hvort hann ætli sér að handleika mauranna svarar Þorkell:

 „Það á eftir að koma í ljós. Þessir maurar eru mjög herskáir og geta stungið og valdið miklum sársauka. Þetta eru maurar skyldir býflugum og vespum. Þannig ég ætla ekki að lofa neinu hvað það varðar.“