Ríkisstjórnin vill lengja í hengingaról atvinnulífsins

Í gær sagðist Náttfari óttast að innihald aðgerða ríkisstjórnarinnar yrðu ekki í samræmi við þær glansumbúðir sem valdar voru með þeirri sýningu í Hörpu sem sviðsett var í dag.

Sá ótti reyndist réttur. Tillögur ríkisstjórnarinnar ganga allt of skammt og eru auk þess seinvirkar.

Það skal tekið fram að lögin um auknar atvinnuleysisbætur munu gagnast vel og koma strax til framkvæmda, fólki og fyrirtækjum til góða. Áætlað er að þær muni nema 22 milljörðum króna.

Atvinnulífinu býðst að fresta skattgreiðslum upp á 75 milljarða króna fram á næsta ár. Ekki á að lækka skatta eða fella þá niður nema í mjög takmörkuðum mæli.

Svo á að standa skil á þessu strax á næsta ári sem mun reynast flestum ofviða.

Þá er mikið gert úr því að bankar veiti „búarlán”, jafnvel með ríkisábyrgðum. Vilja menn reyna að meta það hve langan tíma það muni taka bankana að afgreiða hundruð eða þúsundir lána? Það mun taka vikur og mánuði - og þá verður fjöldi fyrirtækja löngu búinn að gefast upp.

Ráðherrarnir virðast ekki átta sig á slíku ferli enda hafa fæstir þeirra komið nærri atvinnurekstri.

Einu skattarnir sem ætlunin er að lækka er bankaskattur en tveir-þriðju hlutar þeirrar lækkunar rennur beint til banka í eigu ríkisins. Þá á að lækka gistináttagjald um 800 milljónir króna á ári. Það eru smáaurar í stóru myndinni.

Þá telur ríkisstjórnin það til ráðstafanna sinna að heimila fólki að eyða sínum eigin séreignarsparnaði upp á 9,5 milljarða króna!

Og af þeirri fjárhæð mun fólk greiða um 3 milljarða kóna í skatta til ríkis og sveitarfélaga!

Það eru mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi ekki kunna að hugsa stórt að þessu sinni eins og Seðlabankinn. Það þarf að lækka álögur á atvinnulífið stórlega en ekki bara fresta vandanum með því að lengja í hengingarólinni. Núna hefði mátt taka nágranna okkar á Norðurlöndunum til fyrirmyndar. En það er ekki gert.

Nú reynir á stjórnarandstöðuna þegar þessar veikburða tillögur koma til kasta þingsins.