Ríkisstjórnin verður að taka til starfa strax – ekki leyfist lengur að fljóta sofandi að feigðarósi

Landsmenn horfa í forundran upp á vandræðaganginn í ríkistjórn Íslands. Fyrir utan vonda stöðu á vinnumarkaði vegna Eflingar (sem vonandi leysist nú að fenginni miðlunartillögu Ástráðs Haraldssonar) er svo margt að sem þyrfti jafnvel ekki að vera þannig. Dæmi um það er stjórnleysi varðandi verðbólguþróun og vaxtaákvarðanir sem hefði verið unnt að grípa inn í, útlendingamálin eru í uppnámi og um þau er engin samstaða, umhverfismál virðast vera að verða óviðráðanleg, Ísland stendur ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar þannig að formaður Vinstri grænna, forsætisráðherrann, gengur fyrir leiðtoga alþjóðlegra stofnana og grátbiður þá um að leyfa Íslendingum að menga meira en um var samið. Býsna snúin staða – vandræðaleg? Frekar grátleg! Að ekki sé talað um endalausan fjárlagahalla.

Ríkisstjórnin hefur tapað tiltrú. Einkum forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, en flokkur hennar er á góðri leið með að þurrkast út, kominn niður í 6 prósenta fylgi úr þeim 17 prósentum sem flokkurinn lagði upp með inn í samstarfið við Sjálfstæðisflokk og Framsókn í árslok 2017.

Vitaskuld er ekki boðlegt að halda forsætisráðherra við völd sem hefur misst nær allt fygli flokks síns. Það segir næga sögu. Forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar getur ekki unað við það. En vandinn er sá að forysta þessara tveggja flokka er ekki samstiga og hefur ekki með sýn til næstu framtíðar, hvað þá lengra.

Nú er komið að því að horfast í augu við staðreyndir og ljúka við mikilvæga uppstokkun í stjórnmálum án þess að ríkisstjórnin falli. Annað eins hefur gerst áður.

Er ekki kominn tími á að hinir þreyttu og úrræðalausu stjórnmálaleiðtogur hverfi nú af vettvangi á eigin forsendum með þeirri reisn sem getur orðið í boði úr þessu?

Forsætisráðherra verður að víkja enda er flokkur Katrínar kominn niður í 6 prósenta fylgi en þannig er ekki hægt að stjórna landinu. Flokkur hennar þarf að víkja úr ríkisstjórninni til þess að unnt verði að koma á trúverðugu ástandi.

Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn gætu stjórnað einir til kosninga í apríl 2025, eftir rúm tvö ár. Einhver einn flokkur gæti varið slíka ríkisstjórn falli. Einnig mætti taka inn í ríkistjórnina einn af stjórnrandstöðuflokkunum. Vilji menn sterka stöðu við erfiðar aðstæður þá væri Samfylgingin augljós kostur með um fjórðung kjósenda samkvæmt skoðanakönnunum um þessar mundir.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að ljúka við augljósar breytingar á forystu sinni. Bjarni Benediktsson er greinilega kominn í brottfararstellingar. Eftirmaðurinn er klár, kynslóðaskiptin liggja fyrir. Bjarni þarf að víkja sem fyrst fyrir Þórdísi Kolbrúnu, varaformanni flokksins, sem er tilbúin að taka flokkinn og þjóðina á herðar sér.

Sama gildir um Framsókn.Sigurður Ingi hefur toppað. Framsókn mun ekki verja góða stöðu næstu árin. Hann ætti að skilja sinn vitjunartíma. Sigurður Ingi getur stigið stoltur af sviðinu núna.

Þá mun Ásmundur Einar Daðason taka við. Annað hvort hann eða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður næsti forsætiráðherra Íslands.

– Ólafur Arnarson